Hoppa yfir valmynd
7. mars 2024 Forsætisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vaxandi velsæld - Aðgerðir stjórnvalda til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. - mynd

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa sameiginlega lagt fram aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. Aðgerðirnar styðja við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.

Heildarumfang aðgerðanna er allt að 80 milljarðar króna á samningstímanum. Í þeim er lögð sérstök áhersla á að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða því að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Auknar ráðstöfunartekjur fólks í leiguhúsnæði 

Auknar ráðstöfunartekjur fólks með húsnæðislán

 

Til að tryggja að ríkisfjármálin í heild styðji við markmið samningsaðila um verðstöðugleika og lækkun vaxta verður aðgerðum vegna kjarasamninga forgangsraðað sérstaklega í komandi fjármálaáætlun fyrir árin 2025-29. Trúverðug áætlun um lækkun skulda og bætta afkomu styður við markmið samningsaðila um lækkun verðbólgu og vaxta.

Heilbrigðari húsnæðismarkaður

Til að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði verður ráðist í aðgerðir sem nema um 50 milljörðum króna á samningstímanum. Markmiðið er að auka stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis.

Öflug uppbygging

Áhersla verður á öfluga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við þörf. Stutt verður við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum. Ríkissjóður mun leggja til 7-9 milljarða króna í stofnframlög á ári og tryggja hlutdeildarlán til að treysta húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað. Sveitarfélögin munu leggja til byggingarhæfar lóðir og stofnframlög til að mæta uppbyggingarþörf. Þá verður unnið að skilvirkari stjórnsýslu húsnæðis- og byggingamála auk rýmri heimilda lífeyrissjóða til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði. 

Sérstakur vaxtastuðningur

Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Ekki er gert ráð fyrir að aðgerðin verði endurtekin árið 2025 þar sem forsendur kjarasamninga miðast við að vaxtakostnaður heimila muni lækka.

Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma. Sérstakur vaxtastuðningur kemur til afgreiðslu í tengslum við álagningu í maí 2024. 

Sérstakur vaxtastuðningur eftir tekjum og eignum

 

Þá verður skipaður starfshópur sem leggur mat á húsnæðislánakerfið og fyrirkomulag húsnæðisstuðnings hér á landi í samanburði við Norðurlöndin og geri tillögur að framtíðarfyrirkomulagi.

Aukinn stuðningur við leigjendur

Til að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní n.k. munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25% og aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að 6 heimilismenn í stað 4 áður. Kostnaður vegna þessa eru um 2,5 milljarðar króna á ársgrundvelli. Þá verður umgjörð, upplýsingagjöf og umsóknaferli um sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaganna einfaldað og samræmt.

Húsnæðisöryggi leigjenda verður aukið og skýrari rammi settur um ákvörðun og fyrirsjáanleika leigufjárhæðar með breytingum á húsaleigulögum auk bættrar ráðgjafar og upplýsinga til leigjenda.

Fjölskylduvænt Ísland

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Það verður gert með aðgerðum sem eru um 50 milljarðar króna að umfangi á samningstímanum.

Hækkun barnabóta

Framlög til barnabóta verða aukin um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Í heildina munu framlög til barnabóta hækka um 3 milljarða króna á þessu ári og um 2 milljarða króna á árinu 2025 og verða þá orðin um 21 milljarður króna á ári. 

Hækkun barnabóta 

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans. Foreldrar greiða í dag að jafnaði um 12.000 krónur mánuði fyrir skólamáltíðir eins grunnskólabarns. Áætlað er að kostnaður við þetta nemi um 5 milljörðum króna á ársgrundvelli og mun ríkið leggja til allt að 75% kostnaðarins eða allt að 4 milljarða króna á ári á samningstímanum. Ríki og sveitarfélög munu útfæra verkefnið í sameiningu fyrir lok maí 2024. Til að meta árangur tilraunaverkefnisins verður óháðum aðila falið að leggja mat á framgang þess vorið 2026.

Hærri fæðingarorlofsgreiðslur

Til að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr. 

Samstaða um að brúa bilið

Aðilar munu taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist. 

Aðgerðir gegn kynbundnum launamun

Til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum verður unnið að virðismatskerfi sem byggir á tillögum aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að innleiðing taki allt að þrjú ár og nýtt kerfi liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2026.

Bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu

Dregið úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð með því að tryggja 4 niðurgreiddar ferðir af sjúkratryggingum á ári. 

Ábyrgðasjóður launa

Hámarksábyrgð úr Ábyrgðasjóði launa verður hækkuð í þremur skrefum, úr 633.000 kr. í 850.000 kr. þann 1. apríl 2024 og 970.000 1. janúar 2025.

Aukin tækifæri til starfsþjálfunar

Framlög til Vinnustaðanámssjóðs verði aukin um150 milljónir á ári til að efla vinnustaðanám og fjölga tækifærum nema til starfsþjálfunar.

Umbætur á Menntasjóði námsmanna

Gerðar verða breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá verða skilyrði fyrir veitingu námsstyrkja rýmkuð þar sem tekið er tillit til þverfaglegs náms. Auk þess er stefnt að því að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána.

Lægri verðbólga

Til að stuðla að verðstöðugleika munu ríki og sveitarfélög halda aftur af gjaldskrárhækkunum og munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. 

Sveitarfélögin lýsa yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verður gjaldskrárhækkunum á samningstímanum stillt í hóf eins og nokkur kostur er.

Stjórnvöld leggja áherslu á að stuðla að minni verðbólgu, auknum lífsgæðum og aukinni framleiðni. Til að vinna að því markmiði verður komið á fót sérfræðingaráði um framleiðni sem verði stjórnvöldum til ráðgjafar um hvernig hægt er að stuðla að aukinni framleiðni.

Til að tryggja að ríkisfjármálin í heild styðji við markmið samningsaðila um verðstöðugleika og lækkun vaxta verður aðgerðum vegna kjarasamninga forgangsraðað í komandi fjármálaáætlun fyrir árin 2025-29. Trúverðug áætlun um lækkun skulda og bætta afkomu styður við markmið samningsaðila um lækkun verðbólgu og vaxta. 

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga í mars 2024

Vaxandi velsæld - kynningarglærur

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. - mynd
  • Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum