Hoppa yfir valmynd
8. mars 2024 Utanríkisráðuneytið

Málefni EES rædd á Alþingi

Árleg skýrsla um framkvæmd EES-samningsins var til umræðu á Alþingi í gær en þetta er í fjórða skipti sem skýrsla af þessu tagi er gefin út. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra mælti fyrir skýrslunni og í kjölfarið fóru fram umræður um stöðu EES-samstarfsins og helstu málefni á vettvangi Evrópusamvinnunnar en samhljómur var í umræðunni um mikilvægi EES-samstarsfins. Í ár eru 30 ár liðin frá því að EES-samningurinn tók gildi. 

„EES-samningurinn er ótvírætt mikilvægasti viðskiptasamningur okkar Íslendinga því hann tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að og jöfn samkeppnisskilyrði á okkar stærstu og mikilvægustu mörkuðum. Það er óumdeilt að fjórfrelsið svokallaða, með tilheyrandi tækifærum til búsetu, viðskipta, fjárfestinga og frjálsrar farar, hefur verið meðal helstu drifkrafta framúrskarandi lífskjara okkar Íslendinga á síðustu þremur áratugum,“ sagði Bjarni í framsögu sinni.

Auk umfjöllunar um framkvæmd EES-samningsins er í skýrslunni fjallað um þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar, menningar og æskulýðsmála. Í skýrslunni er ávinningur þátttökunnar rakinn og fram kemur að styrkveitingar til íslenskra aðila hafa verið meiri en framlög Íslands. Einnig er fjallað um málefni Uppbyggingarsjóðs EES en í tengslum við viðræður um nýtt framlagatímabil fyrir sjóðinn náðust samningar um bættan aðgang íslenskra sjávarafurða inn á markað ESB, auk þess sem ákveðið var að skoða viðskiptakjör Íslands og ESB í heild sinni. 

„Það var mikilvægt skref að nú hafi verið ákveðið að ráðast í heildstæða endurskoðun á viðskiptakjörum Íslands og ESB, en stefnt er að því að þeim viðræðum verði lokið á samningstímabilinu. Þetta er í fyrsta skipti frá upphafi EES-samstarfsins sem ESB fellst á slíka heildarendurskoðun og með þessu verður til formlegur vettvangur til að ræða við Evrópusambandið um viðskiptakjör, þar með talið um greiðari aðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir. Í þessu felast ótvíræð sóknarfæri sem við skulum nýta okkur. Við höfum lengi bent á að það veki spurningar, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ríki utan EES hafi betri viðskiptakjör fyrir sjávarafurðir inn á innri markaðinn heldur en við Íslendingar, sem erum hluti af EES,“ sagði Bjarni.  

Skýrslan fjallar að meginefni um tímabilið frá miðju ári 2022 fram á mitt ár 2023. Fram kemur að framkvæmd EES-samningsins gengur almennt vel en um leið er bent á viðvarandi þörf fyrir aukna samhæfingu og samþættingu innanlands til að gæta sem best hagsmuna Íslands.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum