Hoppa yfir valmynd
11. mars 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Tillögur að auknum náms- og starfstækifærum fyrir fatlað fólk

Starfshópurinn ásamt ráðherrunum þremur. - mynd

Starfshópur um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk hefur skilað tillögum sínum til ráðherra. Hópnum var ætlað að greina núverandi starfs- og menntunartækifæri fatlaðs fólks með tilliti til þess hvað þurfi að bæta, auk þess að leggja fram tillögur að aðgerðum.  

Þrír ráðherrar tóku á móti skýrslunni, þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem skipaði starfshópinn, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. 

Meðal þess sem hópurinn leggur til er að gerð verði þriggja ára áætlun sem feli í sér breytingar á skipulagi starfsbrauta framhaldsskóla. Markmið þess yrði að mæta betur þörfum og væntingum fatlaðra nemenda með sérstakar námsþarfir og gera það á opinni námsbraut. Meðal tillagna á háskólastigi er að aðfaranám verði aðgengilegt fyrir öll, í alla háskóla, og að framboð verði aukið á starfstengdu námi og á styttri námsleiðum.  

Á vettvangi framhaldsfræðslu verði samstarf Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Fjölmenntar eflt. Þá verði fræðsla og stuðningur efld við kennara og starfsfólk háskóla og fræðasamfélagsins, sem og kennara og starfsfólk fræðslu- og símenntunarmiðstöðva um land allt.  

Þá leggur hópurinn til aukið aðgengi fatlaðs fólks að vottuðu námi innan framhaldsfræðslu, sem er starfstengt og lýkur með réttindum samkvæmt Fagbréfi atvinnulífsins. Einnig leggur hópurinn til aukið samstarf Vinnumálastofnunar og vinnustaða og virkniúrræða sem eru sérstaklega aðgreind fyrir fatlað fólk. Markmiðið er að styðja betur við og efla þátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði.  

Sara Dögg Svanhildardóttir var formaður starfshópsins en í hópnum áttu sæti fulltrúar ráðuneyta og stofnana sem að málaflokknum koma, auk fulltrúa frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, samtökum aðila vinnumarkaðarins og fræðsluaðilum. 

Tillögum hópsins var ætlað að falla að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og áherslum sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um menntun og atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Markmiðið er að fatlað fólk geti tekið fullan þátt í námi og á vinnumarkaði á eigin forsendum. 

Tekið var mið af tillögum starfshópsins við gerð þingsályktunartillögu um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks

Þórir Gunnarsson, sem tilnefndur var í starfshópinn af Þroskahjálp, er hér með ráðherrunum þremur.

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður starfshópsins, ásamt starfsmönnum hópsins þeim Hildi Margréti Hjaltested, lögfræðingi í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, og Áslaugu Melax, sérfræðingi í ráðuneytinu.

Starfshópurinn ásamt ráðherrunum þremur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum