Hoppa yfir valmynd
12. mars 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samráðsgátt: Frumvarp birt sem felur í sér aukið samstarf og eftirlit á vinnumarkaði

Drög að frumvarpi sem felur í sér aukið samstarf og eftirlit á vinnumarkaði hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpinu er meðal annars ætlað að styrkja samvinnu stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins við að sporna gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að styrkja eftirlit og samstarf þeirra aðila sem fara með opinbert eftirlit á vinnumarkaði.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að það hlutverk sem Vinnumálastofnun hefur haft samkvæmt lögum, hvað varðar eftirlit á vinnumarkaði, verði flutt til Vinnueftirlits ríkisins.

Frumvarpið var samið í samstarfshópi sem skipaður var fulltrúum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Vinnueftirliti ríkisins og Vinnumálastofnun.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Ég vonast til að þessar breytingar styrki eftirlit og styðji við samvinnu ólíkra aðila gegn brotum á vinnumarkaði með tilheyrandi ávinningi fyrir starfsfólk og fyrirtæki. Auk þess má ætla að færri brot á vinnumarkaði leiði af sér bætta samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem fara að þeim lögum og reglum sem hér gilda á vinnumarkaði þannig að það er til mikils að vinna hvernig sem á það er litið. Dæmi undanfarinna vikna sýna auk þess svo sannarlega þörfina fyrir markvisst samstarf til að auka líkur á að árangur náist í aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.“

Frestur til að gera athugasemd við frumvarpsdrögin er til 17. mars nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum