Hoppa yfir valmynd
13. mars 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Alþjóðlegur staðall um hið íslenska Barnahús

Hafin er vinna við gerð leiðbeininga á vettvangi alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO fyrir Barnahús. ISO eru stærstu staðlasamtök í heimi og gefa auk staðla út alþjóðlegar samþykktir. Vinnan byggir á íslenska barnaverndarúrræðinu Barnahúsi sem tekið hefur verið upp í mörgum löndum undir heitinu „Barnahus“. Markmiðið er að skilgreina þær kröfur sem þarf að uppfylla til að bera heitið „Barnahus“ og ná fram markmiðum þess.

Barnahús sinna börnum sem sætt hafa kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Í Barnahúsum fá börn einstaklingsmiðaðan stuðning í barnvænu umhverfi. Tilgangur Barnahúsa er að vernda börnin með því að veita alla þjónustu sem þau þurfa á að halda á einum stað. Þjónustan er þeim að kostnaðarlausu og felst meðal annars í að veita barninu sálfræðimeðferð í kjölfar ofbeldis og annast skýrslutökur fyrir dómi í barnvænu umhverfi. Með þjónustu Barnahúsa er markmiðið einnig að koma í veg fyrir að börnin þurfi að endurtaka sögu sína við ókunnuga aðila úr mismunandi þjónustukerfum.

Barnahús var stofnsett á Íslandi árið 1998. Úrræðið hefur gefið góða raun og eftir því er tekið á alþjóðavísu. Að íslenskri fyrirmynd hafa samskonar úrræði verði sett upp í fjölda landa undir heitinu „Barnahus“. Evrópuráðið hefur frá árinu 2015 sérstaklega stutt við uppbyggingu Barnahúsa í Evrópu og hvatt ríki til að opna a.m.k. eitt Barnahús í hverju landi. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur einnig í fyrirtökum sínum hvatt ríki til að opna þverfaglega þjónustu við börn sem eru þolendur ofbeldis og m.a. vísað til Barnahúss í því sambandi.

Til að tryggja að gæðaviðmiðum um framkvæmd þjónustu Barnahúsa séu uppfyllt í alþjóðlegu samhengi samdi mennta- og barnamálaráðuneytið við sænsku staðlastofnunina, Svenska institutet för standarder (SIS), um að vinna formlega umsókn um alþjóðlegan staðal um Barnahús sem nú hefur verið skilað til ISO samatakanna. Að undirbúningi umsóknarinnar komu einnig sérfræðingar á vegum Barna- og fjölskyldustofu og Staðlaráðs Íslands.

„Hið íslenska Barnahús hefur reynst vel hér heima sem og gefið góða raun erlendis. Nú eru Barnahús starfrækt í 28 Evrópuríkjum og eru fimm til viðbótar að vinna að uppsetningu þeirra. Markmið vinnu við gerð alþjóðlegra leiðbeininga og útgáfu staðals í framhaldinu er að tryggja að Barnahús séu stöðluð milli landa. Með viðurkenndum alþjóðlegum staðli um Barnahús geta börnin, foreldrar þeirra og þjónustuaðilar gengið að því sem vísu að úrræðið uppfylli kröfur um réttindi og velferð barna – barna í sérlega viðkvæmri stöðu,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

ISO-staðallinn nær til 169 aðildarríkja sem geta tekið þátt og lagt sitt af mörkum í ferlinu. Stefnt er að því að birta staðalinn í lok þessa árs.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum