Hoppa yfir valmynd
14. mars 2024 Innviðaráðuneytið

Opinn kynningarfundur um tillögur starfshóps um borgarstefnu

Innviðaráðuneytið vekur athygli á opnum kynningarfundi um tillögur starfshóps um borgarstefnu.

Drög að fyrstu borgarstefnu fyrir Ísland hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Kynningarfundurinn verður haldinn á Teams föstudaginn 22. mars kl. 13-14. Öll eru hvött til að sækja fundinn en þátttakendur eru beðnir um að skrá sig hér.

Dagskrá:

  • Ingvar Sverrisson, formaður starfshóps um mótun borgarstefnu, kynnir tillögur starfshóps um fyrstu borgarstefnu fyrir Ísland, framtíðarsýn og lykilviðfangsefni.
  • Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri og fulltrúi í starfshópnum, ræðir þýðingu borgarstefnu fyrir Akureyri og áhrifasvæði.
  • Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur og fulltrúi í starfshópnum, ræðir þýðingu borgarstefnu fyrir Reykjavík og áhrifasvæði.
  • Umræður í lok fundar.

Teams-hlekk á fundinn má finna hér.

Mikilvægt er að fá fram skoðanir og álit almennings og annarra hagaðila og eru því öll hvött til að kynna sér drögin og senda umsögn sína inn í samráðsgáttina. Frestur til að skila inn umsögn hefur verið framlengdur og er nú til og með 10. apríl næstkomandi.

Nánar um borgarstefnu

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hyggst leggja fram tillögu til þingsályktunar um borgarstefnu á Alþingi á komandi haustþingi. Ein af áherslum byggðaáætlunar er að styrkleikar einstakra svæða verði greindir, unnið með þá og gætt að samspili þéttbýlis og dreifbýlis í þeim tilgangi að byggja upp fjölbreytt sjálfbær byggðarlög. Þessi áhersla felur meðal annars í sér að móta stefnu þar sem skilgreint verði hlutverk Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins annars vegar og Akureyrarsvæðisins hins vegar í byggðaþróun í landinu,.

Aðgerð C.4 Borgarstefna í byggðaáætlun byggist á þessari áherslu en markmið hennar er að tvö stærstu þéttbýlissvæði landsins verði efld og samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun landsins styrkt. Í lok árs 2022 var skipaður starfshópur um mótun borgarstefnu á grundvelli aðgerðarinnar og hefur hópurinn unnið drög að borgarstefnu.

Markmið borgarstefnu er að styrkja stöðu Íslands í harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki og stuðla að samspili þéttbýlis og dreifbýlis til uppbyggingar sjálfbærra byggðarlaga. Í því felst annars vegar að styrkja höfuðborgarhlutverk Reykjavíkur, höfuðborgarsvæðið og áhrifasvæði þess. Hins vegar að festa Akureyri í sessi sem svæðisborg og skilgreina og efla hlutverk hennar og áhrifasvæði.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum