Hoppa yfir valmynd
20. mars 2024 Dómsmálaráðuneytið

Skrifuðu undir viljayfirlýsingu um aukið samstarf á sviði almannavarna

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, undirrituðu viljayfirlýsingu um aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði almannavarna á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í Hörpu þann 14. mars. Nú stendur yfir vinna við heildarendurskoðun laga um almannavarnir, í breiðu samráði við meðal annars sveitarfélög og almannavarnarnefndir um land allt. Samvinna ríkis og sveitarfélaga er lykilatriði í því að almannavarnarkerfið virki sem skyldi og er markmiðið með yfirlýsingunni að auka samstarf á sviði almannavarna.

Undanfarin misseri hefur reynt mjög á alla innviði almannavarna. Heimsfaraldur Covid-19, aurskriður á Seyðisfirði, snjóflóð á Neskaupsstað og jarðhræringar á Reykjanesskaga eru nýleg dæmi sem leitt hafa í ljós mikilvægi þess að á landinu sé öflugt almannavarnarkerfi sem vinnur þétt saman þegar á reynir. Reynslan sýnir einnig að áfram má búast við atburðum sem kalla á aðkomu almannavarnarkerfisins og fyrirséð að meðal annars loftlagsbreytingar muni kalla á aðlögun og aukið viðbragð kerfisins.

Áhersla verður lögð á að skýra sviðsábyrgð hvers aðila fyrir sig, að auka þekkingu í sveitarfélögum á sviði almannavarna og að vinna markvisst að því að bæði sveitarfélög og ríki hafi nauðsynleg verkfæri og bjargir til að bregðast við almannavarnarástandi. Þá verður skipulag, ábyrgð og hlutverk lykilaðila í almannavarnarkerfinu skoðað þegar kemur meðal annars að forvörnum, fræðslu og viðbragði.

Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í almannavarnarmálum. Almannavarnarnefndir sveitarfélaga móta stefnu og skipuleggja starf sitt að almannavörnum í héraði og bera meðal annars ábyrgð á gerð viðbragðsáætlana. Auk þess sinna sveitarfélögin nærþjónustu við íbúana og því reynir verulega á alla innviði sveitarfélaga þegar alvarlega almannavarnaratvik koma upp.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga: „Mikið og gott samstarf ríkis og sveitarfélaga er grunnforsenda fyrir því að almannavarnakerfið okkar geti sinnt sínu hlutverki, og því einstaklega ánægjulegt að undirrita þessa viljayfirlýsingu. Þegar upp koma alvarleg áföll og krísur reynir mikið á sveitarfélögin, enda eru þau í nánum tengslum við íbúa sína og innviðir þeirra verða fyrir miklu álagi. Þess vegna er svo mikilvægt að við aukum samtalið milli ríkis og sveitarfélaga og auðveldum um leið sveitarfélögum að skipuleggja viðbrögð við áföllum.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra: „Samvinna ríkis og sveitarfélaga er lykilatriði í því að almannavarnarkerfið virki sem skyldi. Það hefur sýnt sig í jarðhræringunum að undanförnu að við náum mestum árangri þegar margir leggja hönd á plóg og því er mikilvægt að áhersla verði lögð á að skýra sviðsábyrgð hvers aðila fyrir sig.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum