Hoppa yfir valmynd
21. mars 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Líflegar umræður um framtíð rammaáætlunar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flutti ávarp við upphaf málsstofu um framtíð rammaáætlunar. - mynd

Stór og fjölbreyttur hópur tók þátt í málstofu um framtíð rammaáætlunar sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið boðaði til í Lestrarsal Þjóðmenningarhússins sl. þriðjudag og þá fylgdist fjölmennur hópur með málstofunni í gegnum streymi.

Málþingið markar upphaf vinnu starfshóps, sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði til að endurskoða verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun). Starfshópinn skipa þau Hilmar Gunnlaugsson, hrl, sem er formaður hópsins, Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi ráðherra umhverfis- og auðlindamála, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður. Þau Hilmar, Björt og Kolbeinn skipuðu í fyrra starfshóp um málefni vindorku, sem skilað hefur ráðherra tillögum sínum og mun vinna þess hóps nýtast við endurskoðun rammaáætlunar.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarinnar er kveðið á um endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, til að tryggja megi ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi. 

Í ávarpi sínu við upphaf málstofunnar nefndi ráðherra þær áskoranir sem Íslendingar standi nú frammi fyrir vegna grænna orkuskipta og þann góða grunn sem orkuskipti fyrri kynslóða búi þjóðinni. Nefndi Guðlaugur Þór m.a. að orkuskipti fyrri kynslóða væru ein ástæða þess að Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, sem nýlega var í heimsókn hér á landi, hefði óskað eftir samstarfi við Ísland í jarðhitamálum.

„Íslendingar eru náttúruverndarsinnar í eðli sínu og það er ekki tilviljun að hingað kemur fólk til að upplifa ósnortin víðerni, sem eru bæði fágæt og verðmæt,“ sagði Guðlaugur Þór. Ekki sé hins vegar hægt að horfa framhjá því að Íslendingar séu komnir á alvarlegan stað í grænorkumálum, m.a. vegna þess að rammaáætlun sé ekki að virka sem skildi. „Við verðum að vera hér með einfalt og skilvirkt regluverk sem nær jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingar grænnar orku og þegar vinna við endurskoðun rammaáætlunar er að hefjast er skynsamlegt að byrja á því að hlýða á ólík sjónarmið.“

Margvísleg sjónarmið um rammaáætlun komu fram í máli þeirra sem fluttu erindi á málstofunni, sem og í pallborðsumræðum í lok fundar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum