Hoppa yfir valmynd
21. mars 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Möguleikar til afhendingar gagna með öðrum hætti en í stafrænu pósthólfi útfærðir í reglugerð

Reglugerð um framkvæmd laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda tók nýlega gildi. Í henni eru nánar útfærð ýmis atriði sem snúa að pósthólfinu og notkun þess, meðal annars um hvaða gögn er heimilt að birta í pósthólfinu, hverjir hafa aðgang að því og hvernig er staðið að því að tryggja öryggi í rekstri þess.

Sérstök athygli er vakin á því að með reglugerðinni eru útfærðir nánar möguleikar almennings til að fá gögn einnig afhent með öðrum hætti en í pósthólfinu. Hægt er að óska eftir því annars vegar á mínum síðum Ísland.is og hins vegar á skrifstofu sýslumanna. Eftir gildistöku reglugerðarinnar munu stjórnvöld byggja á því, sem 7. gr. laga um stafrænt pósthólf kveður á um, að birting gagna með pósthólfinu sé jafngild hvers kyns öðrum birtingarmátum sem mælt er fyrir um í lögum.

Með reglugerðinni er stigið stórt skref í að nýta pósthólfið til að bæta opinbera þjónustu, á sama tíma og tekið er tillit til óska þeirra sem vilja fá gögn jafnframt með öðrum hætti.

Í stafræna pósthólfinu geta einstaklingar og fyrirtæki nálgast sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera, í samræmi við sýn stjórnvalda um að meginboðleið samskipta þess við almenning verði með stafrænum hætti og miðlæg á einum stað. Vel útfærðar stafrænar lausnir eru lykilatriði í að stuðla að jafnræði og aðgengi fyrir alla, en þær nýtast til að mynda sérstaklega vel sjónskertum og þeim sem hafa íslensku sem annað tungumál.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum