Hoppa yfir valmynd
25. mars 2024 Innviðaráðuneytið

Óstaðbundin störf stuðla að búsetufrelsi

Borgarnes - myndMynd/iStock

Mögulegt væri að auglýsa 12% starfa hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins sem óstaðbundin. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) gerði fyrir framkvæmdahóp um innleiðingu stefnu stjórnvalda um óstaðbundin störf. Í könnuninni komu einnig fram áhyggjur stjórnenda af auknum kostnaði sem óstaðbundin störf gætu haft í för með sér.

Það er skýr stefna ríkisstjórnarinnar og Alþingis að ríkisstörf skuli almennt ekki vera staðbundin, enda stuðli það að því að fólk geti valið sér búsetu hvar sem er á landinu. Í byggðaáætlun er sett fram aðgerð sem snýr að því að hrinda þessari stefnu í framkvæmd (aðgerð B.7 Óstaðbundin störf).

Innviðaráðherra skipaði þriggja manna framkvæmdahóp vorið 2023 sem hefur það hlutverk að vinna að framkvæmd stefnunnar. Störf á vegum ríkisins eru hlutfallslega mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu en í öðrum landshlutum og er aðgerðinni ætlað hækka hlutfallið á landsbyggðinni og styrkja þannig búsetu um land allt. Aðgerðin er byggðaaðgerð og felur hvorki í sér flutning starfa út fyrir landsteinana né flutning starfa af landsbyggð á höfuðborgarsvæðið. Á hinn bóginn felur hún í sér að mengi hæfra umsækjenda stækkar en eftir sem áður verði hæfasti umsækjandi ráðinn.

Meðal fyrstu verkefna hópsins var að uppfæra leiðbeiningar um óstaðbundin störf fyrir stjórnendur. Leiðbeiningarnar er að finna á Mannauðstorgi ríkisins. Þar kemur m.a. fram að óstaðbundið starf er ekki það sama og starf sem unnið er í fjarvinnu og ekki gert ráð fyrir að störf séu unnin innan veggja heimilis.

Árið 2021 var fyrst gerð könnun um stöðu og framtíðarhorfur óstaðbundinna starfa hjá ráðuneytum og stofnunum. Framkvæmdahópurinn fól RHA að endurtaka könnun af þessu tagi og var skýrslu um hana skilað í febrúar sl.

Meðal næstu verkefna framkvæmdahópsins eru fundir með mannauðsstjórum ráðuneyta og Félagi forstöðumanna ríkisstofnana. Þá er í skoðun hvort nýta megi fjármuni af byggðaáætlun til að koma til móts við aukin kostnað sem stofnanir þyrftu annars að taka á sig vegna óstaðbundinna starfa, svo sem vegna húsnæðiskostnaðar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum