Hoppa yfir valmynd
26. mars 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fyrsta málstefnan um íslenskt táknmál samþykkt: Jákvætt viðhorf er kjarninn!

Langar þig að læra íslenskt táknmál? Kíktu á www.shh.is og www.signwiki.is     - mynd

Málstefna um íslenskt táknmál 2024-2027 var samþykkt í síðustu viku á Alþingi. Þetta er í fyrsta sinn sem gerð hefur verið málstefna um íslenskt táknmál (ÍTM) og aðgerðaáætlun til að draga úr útrýmingarhættu þess, varðveita tungumálið til framtíðar, fjölga umdæmum íslensks táknmáls og stuðla að bættu málumhverfi táknmálsfólks og táknmálsbarna.

Sjá táknmálstúlkun hér: 

Málstefna ÍTM-Samþykkt.mp4

Stefnan var unnin af starfshópi skipuðum fulltrúum Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra með víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum.

„Það er á okkar ábyrgð að tryggja framtíð íslensks táknmáls og það er ekki verkefni sem ég tel léttvægt. Lykilinn að framtíð táknmálsbarna er samofinn því að við tryggjum íslenskt táknmál í máltöku barnanna og byggjum þeim bjart og hvetjandi umhverfi. Þar skiptir jákvæðni gífurlegu máli samkvæmt niðurstöðum starfshóps og sérfræðinga. Jákvæðni í garð íslensks táknmáls er eitthvað sem við getum öll stuðlað að og með því stutt við jafnari tækifæri fyrir öll þau sem reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Milli 1000-1500 einstaklingar tala íslenskt táknmál og er það eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi. Samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls (nr. 61/2011) er íslenskt táknmál jafnrétthátt íslensku til tjáningar og samskipta.

Málstefnan tekur til sex meginstoða sem skipta máli fyrir málstefnu minnihlutamálsins ÍTM samkvæmt niðurstöðu starfshópsins:

1. Jákvætt viðhorf er kjarni málstefnu ÍTM og grundvöllur jafnra tækifæra
2. ÍTM í máltöku táknmálsbarna er lykillinn að framtíðinni
3. Rannsóknir á ÍTM skipta sköpum fyrir varðveislu menningarverðmæta
4. Jöfn þátttaka í íslensku þjóðlífi fæst með fjölgun umdæma ÍTM
5. Lagaumhverfi á að tryggja stöðu ÍTM
6. Efling máltækniþekkingu og sporna þannig gegn útrýmingu ÍTM

Samkvæmt stefnunni skulu íslenska ríkið og sveitarfélög stuðla að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðja að öðru leyti við menningu, menntun og fræðslu táknmálsfólks.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sá um túlkun á aðgerðaráætlun, þingsályktun og fréttinni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum