Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2024 Dómsmálaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Endurreisn réttlætis fyrir Úkraínu

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sótti í gær ráðherraráðstefnu um endurreisn réttlætis fyrir Úkraínu (Restoring Justice for Ukraine) sem haldin var í Hollandi. Ráðstefnan er liður í vinnu við friðaráætlun forseta Úkraínu og markar vörðu á þeirri leið að skilgreina og rannsaka glæpi og það tjón sem Rússar hafa valdið Úkraínu og íbúum landsins með allsherjarinnrás sinni sem hófst fyrir rúmum tveimur árum.

„Það var áhrifaríkt að sækja þessa ráðstefnu og finna fyrir þeim stuðningi sem Úkraína nýtur á alþjóðavettvangi. Innrás Rússlands er alvarlegasta öryggisógn sem Evrópa hefur staðið frammi fyrir frá lokum seinni heimsstyrjaldar og það er sameiginlegt verkefni alþjóðasamfélagsins, og sérstaklega Evrópuríkja, að Rússland verði látið sæta ábyrgð á glæpum sínum og því tjóni sem innrásin hefur valdið,” sagði dómsmálaráðherra í kjölfar fundarins.

Meginviðfangsefni ráðstefnunnar var stuðningur við Úkraínu vegna rannsókna og saksóknar fyrir stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og glæpi gegn friði. Enn fremur var hún liður í undirbúningi ákvarðana um skaðabætur vegna áhrifa og afleiðinga innrásar Rússlands, auk alþjóðlegar samhæfingar á rannsóknum, saksókn, og upplýsingamiðlun milli ríkja og alþjóðastofnana sem eiga hlut að máli. Tjónaskrá vegna innrásarinnar í Úkraínu var stofnsett á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í maí á síðasta ári og var þetta fyrsti ráðherrafundur aðildarríkjanna.

Auk Íslands undirrituðu 43 ríki yfirlýsingu ráðherraráðstefnu um endurreisn réttlætis fyrir Úkraínu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum