Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Framtíðarsýn um vísindi og nýsköpun: Hæfni, innviðir og stöðugleiki

Frá fundi Vísinda- og nýsköpunarráðs í mars sl. Frá hægri: Freysteinn Sigmundsson, formaður, Lotta María Ellingsen, Finnur Ulf Dellsén, Kormákur Hlini Hermannsson, varafulltrúi fyrir Hildi Einarsdóttur, Robert-Jan Smits, Kolbrún Hrafnkelsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, varafulltrúi fyrir Hilmar Veigar Pétursson, Elín Díanna Gunnarsdóttir og Sir Paul Nurse.  - mynd

Vísinda- og nýsköpunarráð hélt fyrsta staðfund sinn á þessu ári dagana 14. og 15. mars sl. Var það í fyrsta sinn sem erlendir fulltrúar í ráðinu, sem skipað var síðasta sumar, koma til landsins á fund þess. Erlendu fulltrúarnir eru Sir Paul Nurse, Nóbelsverðlaunahafi í lífeðlis- og læknisfræði og forstjóri Francis Crick Institute í Bretlandi, og Robert-Jan Smits, forseti Eindhoven tækniháskólans í Hollandi og fyrrverandi aðalframkvæmdastjóri yfir rannsókna og nýsköpunarsviði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (DG RTD). Til hans er gjarnan litið sem eins aðalhönnuðar H2020 rammaáætlunar ESB.

Á fundi ráðsins var tillaga til ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun um framtíðarsýn til næstu 10 ára samþykkt. Framtíðarsýnin lýsir því að árið 2034 séu vísindi og nýsköpun viðurkennd sem drifkraftur velsældar þjóðarinnar, skapi samfélagslegan ávinning og stuðli að vernd umhverfisins. Ísland sé eftirsóttur staður fyrir hæfni, grunnrannsóknir og alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki og rannsóknastofnanir. Ísland búi þá jafnframt yfir framúrskarandi menntakerfi sem ýti undir forvitni, sköpunargleði og gagnrýna hugsun nemenda frá unga aldri. Vísinda- og nýsköpunarstefna mun standa á þremur meginstoðum sem byggja þarf undir, þ.e. hæfni, innviðum og stöðugleika.

Einnig var lögð fram tillaga um að mótuð verði stefna um opin og ábyrg vísindi á þessu ári. Stefna um opinn aðgang og opin gögn hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið, en í ljósi viðkvæmrar og flókinnar landfræðipólitískrar stöðu er jafnframt mikilvægt að rannsóknasamfélagið sé vakandi fyrir því að vernda hugverk, viðkvæmar rannsóknir og gögn og gæta þess að þau séu ekki misnotuð.

Báðar tillögur voru samþykktar á sameiginlegum fundi ráðsins og ráðherranefndarinnar sem haldinn var þann 15. mars. Samstarfshópi ráðuneyta um vísindi og nýsköpun var falið að vinna að nánari útfærslu þessara verkefna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum