Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samningur um stækkun verk- og starfsnámsaðstöðu við Menntaskólann á Ísafirði undirritaður

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari MÍ, Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar - mynd

Samningur milli ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum um allt að 1.000 fermetra stækkun á verk- og starfsnámsaðstöðu við Menntaskólann á Ísafirði var undirritaður í skólanum í dag. Að samningnum standa Ásmundur Einar Daðason fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps og Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar fyrir hönd sveitarfélaganna ásamt Heiðrúnu Tryggvadóttur, skólameistara Menntaskólans á Ísafirði.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra hefur sett stækkun verk- og starfsnámsskólanna um allt land í forgang á þessu kjörtímabili, en áform eru um að byggja samtals 12.000 fermetra auk nýrra höfuðstöðva Tækniskólans. Viðbygging Menntaskólans á Ísafirði er liður í þeim áformum og felst í samningnum sem undirritaður var í dag samkomulag milli ríkis og sveitarfélaganna um fjármögnun þannig að hægt verði að klára hönnun, undirbúning og byggingu.

Framkvæmdasýsla ríkisins vinnur að gerð frumathugunar á framkvæmdinni, en skoðað verður að áfangaskipta henni. Í fyrri áfanga verði byggð 850 fermetra bygging og í seinni áfanga verður byggð 150 fermetra bygging. Stofnkostnaður nýbygginga skiptist milli aðila þannig að ríkissjóður greiðir 60% en sveitarfélögin 40%. Stefnt er á að framkvæmdir hefjist á seinni part árs og að fyrsti áfangi verði kominn í notkun haustið 2026.

 „Uppbygging og stækkun verk- og starfsnámsaðstöðu við alla slíka skóla á landinu hefur verið forgangsatriði frá því að ég tók við sem mennta- og barnamálaráðherra. Þessi samningur eitt skref í þá átt og lykilatriði í því koma þessu í framkvæmdafasa hér á Ísafirði og munu fleiri samningar fylgja í kjölfarið. Menntaskólann á Ísafirði er ekki bara mikilvægur fyrir Ísafjörð sem kaupstað heldur fyrir Vestfirði alla. Það verður spennandi að fylgjast með uppbyggingunni á komandi árum og ég óska Vestfirðingum öllum til hamingju með þennan nýja áfanga.“  Segir Ásmundur Einar Daðason.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum