Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Styttra nám í háskólum með samþykkt frumvarps um örnám

Frumvarp um breytingar á lögum um háskóla sem snúa að örnámi og prófgráðum úr diplóma- og viðbótarnámi var samþykkt á Alþingi fyrir páska.

Áform um breytingarnar voru fyrst kynnt í lok árs 2023 en hingað til hefur örnám ekki verið sérstaklega nefnt í lögum um háskóla. Með þessu er heimild háskóla til að bjóða upp á örnám til námseininga lögfest. Örnám felur í sér staðlaðar námseiningar og lýtur öllum gæðakröfum sem gerðar eru til náms á háskólastigi. Örnám hefur vaxið hratt í Evrópu á liðnum árum, ekki síst vegna krafna atvinnulífs og einstaklinga um hæfniþróun og endurmenntun í formi styttri námsleiða. Íslenskir háskólar hafa verið jákvæðir gagnvart örnámi sem leið til að auka tækifæri til háskólanáms fyrir fjölbreytta hópa.

,,Örnám er nýtt og spennandi tæki sem veitir háskólum á Íslandi tækifæri til að hreyfa við námsframboði sínu og auka sveigjanleika þess. Vonir standa til þess að framboð örnáms hvetji fjölbreyttan hóp nemenda til að skrá sig í nám, þannig geta háskólarnir enn betur gegnt samfélagslegu hlutverki sínu, t.a.m. gagnvart fólki af erlendum uppruna, fólki með fötlun eða aðrar sérþarfir eða til að auka hlut karla í háskólanámi hér á landi,” sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þegar hún mælti fyrir breytingarfrumvarpinu í upphafi árs.

Auk lögfestingar á heimild háskóla til að bjóða upp á örnám til námseininga fela lagabreytingarnar í sér svigrúm til háskóla til að aðlaga diplómapróf og viðbótarpróf á meistarastigi til 1. ágúst 2025 samkvæmt óskum háskólanna. Breytingarnar eru einnig liður í uppfærslu á gildandi viðmiðum um æðri menntun og prófgráður. Í þessu felst m.a. að lágmark ECTS-eininga til diplóma- og viðbótarprófs á meistarastigi hækkar úr 30 í 60 ECTS og opnað er á möguleika á veitingu M.Phil.-prófs á doktorsstigi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum