Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Verk- og starfsnámsaðstaða við Fjölbrautaskóla Suðurnesja stækkar um allt að 1.900 fermetra

Árni Gísli Árnason, staðgengill bæjarstjóra Suðurnesjabæjar, Kristján P. Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Vogar.  - mynd

Allt að 1.900 fermetra stækkun verk- og starfsnámsaðstöðu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ mun rísa á næstu árum samkvæmt samningi sem var undirritaður í dag milli mennta- og barnamálaráðuneytisins og sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherrra, Árni Gísli Árnason, staðgengill bæjarstjóra Suðurnesjabæjar, Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Vogar, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Kristján P. Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum undirrituðu samninginn í Húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Frumathugun á framkvæmdinni er í höndum Framkvæmdasýslu ríkisins en skoðað verður að áfangaskipta henni. Í fyrri áfanga verður byggð allt að 1400 fermetra viðbygging og í seinni áfanga verður byggð 500 fermetra bygging. Stofnkostnaður skiptist milli aðila og mun ríkissjóður greiða 60% en sveitarfélögin 40% samkvæmt samningi.

Stefnt er að því að byggja samtals 12.000 fermetra fyrir verk- og starfsnám um allt land auk nýrra höfuðstöðva Tækniskólans en Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur sett stækkun slíkra skóla í forgang á kjörtímabilinu. Þetta er í samræmi við þau miklu auknu aðsókn sem hefur verið í verk- og starfsnám á undanförnum árum. Samningurinn sem undirritaður var í dag er liður í þeim áformum en með undirrituninni í dag er staðfest samkomulag milli ríkis og sveitarfélaganna um fjármögnun verkefnisins og eru næstu skref, undirbúningur, hönnun og bygging.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum