Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mælti fyrir frumvarpi sem felur í sér aukið samstarf og eftirlit á vinnumarkaði

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi á Alþingi sem felur í sér aukið samstarf og eftirlit á vinnumarkaði. Frumvarpinu er meðal annars ætlað að styrkja samvinnu stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins við að sporna gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að styrkja eftirlit og samstarf þeirra aðila sem fara með opinbert eftirlit á vinnumarkaði.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að það hlutverk sem Vinnumálastofnun hefur haft samkvæmt lögum, hvað varðar eftirlit á vinnumarkaði, verði flutt til Vinnueftirlits ríkisins.
Frumvarpið var samið í samstarfshópi sem skipaður var fulltrúum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Vinnueftirliti ríkisins og Vinnumálastofnun.

Guðmundur Ingi benti í framsöguræðu sinni á að vinnumarkaðurinn á Íslandi væri vel skipulagður með öflugum samtökum launafólks og atvinnurekanda. 

„En betur má ef duga skal líkt og nýleg dæmi sem upp hafa komið hér á landi hafa sýnt okkur fram á en í ljósi þeirra atburða, sem í raun enn standa yfir, legg ég ríka áherslu á að frumvarpið verði samþykkt hér á Alþingi sem allra fyrst þannig að við getum styrkt stoðirnar þegar kemur að aðgerðum í því skyni að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum