Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Úttekt á íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfinu: 1 króna verður 6,8 krónur

Mynd úr kynningu ráðherra á Kvikmyndaráðstefnu í Hörpu sl. föstudag. - mynd

Úttekt á íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfinu unnin af breska ráðgjafafyrirtækinu Olsberg•SPI var kynnt á Kvikmyndaráðstefnu í Hörpu sl. föstudag.

Lykilniðurstöður:

  • Íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfið er í fremstu röð á heimsvísu. Samskonar endurgreiðslukerfi eru til staðar í yfir 100 löndum og ríkjum.

  • Nánast 7-faldur magnari. Fyrir hverja krónu sem fór í gegnum endurgreiðslukerfið á úttektartímabilinu (2019-2022) var ávinningurinn fyrir íslenskt efnahagslíf 6,8 krónur miðað við bein, óbein og afleidd áhrif.

  • Olsberg SPI áætlar að á tímabilinu 2019 til 2022 hafi endurgreiðsluhæf framleiðsluverkefni í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð varið á bilinu 9,7–28,9 milljörðum króna á Íslandi á hverju ári. 86% útgjaldanna hefðu ekki átt sér stað á Íslandi ef ekkert endurgreiðslukerfi væri fyrir hendi.

  • Efnahagsleg umsvif kvikmyndaiðnaðarins á tímabili úttektarinnar eru 238 milljarðar króna.

  • Heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu hér á landi við kvikmyndagerð í tengslum við endurgreiðsluhæf framleiðsluverkefni á árunum 2019-2022 eru 48,9 milljarðar króna.

  • 900 manns störfuðu hérlendis við endurgreiðsluhæf kvikmyndaverkefni árið 2022. Samtals 4.200 bein, óbein eða afleidd störf/verkefni.

  

Föstudaginn 5. apríl sl. stóð menningar- og viðskiptaráðuneytið fyrir kvikmyndaráðstefnu í Hörpu undir yfirskriftinni Aukum verðmætasköpun í Kvikmyndagerð á Íslandi til framtíðar. Ráðstefnan var ákaflega vel sótt og mikill áhugi fyrir niðurstöðum úttektar breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg•SPI um efnahagslegan ávinning af íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfinu. Endurgreiðslukerfi eru talin vera hornsteinn alþjóðlegra verkefna í kvikmyndaiðnaði og eru virk í yfir 100 löndum og ríkjum.

„Íslandi hefur tekist að koma á afar vel heppnuðu endurgreiðslukerfi og gera það þjóðhagslega hagkvæmt. Kerfið er einfalt og virkar nokkuð hratt sem er lykilinn. Það eru lönd sem bjóða upp á hærri endurgreiðslu en Ísland, en kerfisvirknin er oft á tíðum svifasein og flókin sem dregur úr skilvirkni þeirra í samanburði við það kerfi sem hér hefur verið komið á,“ segir Jonathan Olsberg einn eigandi  Olsberg•SPI og sérfræðingur í efnahagslegum áhrifum kvikmyndagerðar. Hann bendir einnig á mikilvægi þess að byggja á sterkum grunni og segir að íslenska endurgreiðslukerfið hefði aldrei náð þessum mikla árangri ef ekki væri fyrir vandaða innlenda kvikmyndagerð og aðgengi að fagfólki.

 

1 króna verður 6,8 krónur

Heilt á litið hefur endurgreiðslukerfið skilað sér með jákvæðum hætti fyrir íslenskt efnahagslíf og hver króna sem varið hefur verið til kvikmyndagerðar í kerfinu á umræddu tímabili hefur skilað sér til baka í 6,8 krónum með beinum, óbeinum og afleiddum hætti.

Efnahagsleg umsvif kvikmyndagerðar á árunum 2019-2022 námu samtals 237,9 milljörðum króna í uppsöfnuðum beinum, óbeinum og afleiddum efnahagslegum áhrifum af endurgreiðsluhæfum kvikmyndaverkefnum á tímabilinu (Sjá skýringarmynd hér að ofan).

Endurgreiðsluhæf kvikmynda- og sjónvarpsverkefni skiluðu 18,8 milljörðum króna í beinum virðisauka (e. gross value added), 22,8 milljörðum króna í óbeinum virðisauka og 41,2 milljörðum króna í afleiddum vergum virðisauka – samtals 82,7 milljörðum króna í aukinni verðmætasköpun.

Heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu hér á landi við kvikmyndagerð í tengslum við endurgreiðsluhæf framleiðsluverkefni námu 48,9 milljörðum króna á árunum 2019-2022. Árið 2022 störfuðu 900 manns við hér á landi við kvikmyndagerð í tengslum við endurgreiðsluhæf framleiðsluverkefni eða samtals 4.200 bein, óbein eða afleidd störf (verkefni).

 

 Mynd: Olsberg SPI

Þá kemur fram í skýrslunni að álykta megi að endurgreiðslukerfið hafi haft jákvæð áhrif á innlenda kvikmyndageirann í heild og verið til hagsbóta t.d. fyrir kvikmyndatökuaðila, birgja og innviði á tökustöðum og opnað fyrir möguleika á alþjóðlegum fjárfestingum í greininni. Þá hefur greinin haft áhrif út í aðra atvinnugeira víða um land. Skýrsluhöfundar segja að hækkað endurgreiðsluhlutfall í 35% fyrir stærri verkefni muni skapa tækifæri fyrir Ísland til að festa sig í sessi og bæta stöðu sína sem eftirsóttur tökustaður í kvikmyndaframleiðslu á heimsvísu.

„Úttekt Olsberg•SPI sýnir að sú áhersla sem lögð hefur verið á að efla umgjörð skapandi greina hér á landi er að skila sér og hefur fjölgað stoðum í íslensku atvinnulífi auk þess að styðja við aðrar atvinnugreinar svo sem ferðaþjónustu. Framkvæmdastjóri Íslandsstofu kom inn á það í erindi sínu á ráðstefnunni að samkvæmt þeirra könnunum segjast 30% ferðamanna hafa valið Ísland sem áfangastað vegna þess að þeir sáu landið í sjónvarpsþætti eða kvikmynd,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Ráðherra segir orðspor íslensks kvikmyndaiðnaðar tala sínu máli. „Við eigum framúrskarandi kvikmyndagerðafólk sem hefur lagt grunninn að þeim öfluga iðnaði sem íslensk kvikmyndagerð er. Það kemur ekki af sjálfu sér að byggja upp kvikmyndaiðnað á svo litlu landi. Þrotlaus vinna, oft í krefjandi aðstæðum hefur gert okkar fólk einstaklega útsjónarsamt og fjölhæft sem er undirstaða alls sem við sjáum nú bera ávöxt. Það er hugrekki og hæfileikar sem skapar það orðspor sem við nú njótum. Framtíðin er björt en það má ekki gefa eftir, þvert á móti sjáum við nú hvað hægt er að gera með markvissri vinnu, “ segir Lilja Dögg og bætir við að menning og viðskipti geti svo sannarlega farið vel saman.

Sjá skýrslu Olsberg•SPI Economic Impact Study of Iceland's Production Incentive - Final Report.pdf

Sjá myndir frá viðburðinum

Upptaka frá Kvikmyndaráðstefnunni 5. apríl 2024 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum