Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Hækkun á framlögum til Fæðingarorlofssjóðs, útvíkkun sorgarleyfis og aðgerðir til að aðstoða fólk með mismikla starfsgetu út á vinnumarkað

Átta milljarða króna hækkun á framlögum til Fæðingarorlofssjóðs og aukin framlög vegna sorgarleyfis eru hluti af fjármálaáætlun 2025-2029 sem kynnt var í morgun. Þá bætist á tímabili áætlunarinnar við fjármagn í vinnusamninga örorkulífeyrisþega og vinnumarkaðsaðgerðir fyrir atvinnuleitendur og fólk með skerta starfsgetu sem nemur 900 milljóna kr. árlegu framlagi frá og með árinu 2027.

„Þetta eru mikilvægar aðgerðir sem snerta munu fólk út um landið. Annars vegar er um að ræða aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og falla undir ábyrgðarsvið míns ráðuneytis. Þær miða að því að treysta fjárhagslegt öryggi fjölskyldna. Hins vegar er um að ræða margvíslegar aðgerðir sem ætlað er að aðstoða fólk út á vinnumarkað og taka betur utan um það,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

„Eitt af stóru verkefnunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eitt það stærsta sem unnið hefur verið að í ráðuneyti mínu á kjörtímabilinu fjallar síðan um breytingar á örorkulífeyriskerfinu. Ég hef þegar mælt fyrir frumvarpi þess efnis og fjármögnun kerfisbreytinganna er tryggð í gildandi fjármálaáætlun. Umbylting kerfisins mun marka vatnaskil, þar sem aukin áhersla verður á virkni fólks og tækifæri á vinnumarkaði fyrir þau sem hafa mismikla starfsgetu, samhliða því að tryggja kjör þeirra sem ekki hafa kost á þátttöku í atvinnulífinu.“

Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og Ábyrgðarsjóði launa hækka

Ofangreindar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna nýlegra kjarasamninga og Fæðingarorlofssjóðs varða hámarksgreiðslur úr sjóðnum. Greiðslurnar munu hækka í þremur skrefum og hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra þegar mælt fyrir frumvarpi vegna þessa.

Fyrsta hækkunin átti sér stað þann 1. apríl sl. þegar hámarksgreiðslan fór úr 600.000 kr. á mánuði í 700.000 kr. Frá og með 1. janúar 2025 hækkar hún í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 verður hámarksgreiðslan 900.000 kr. Þessar aðgerðir verða til þess að framlög til Fæðingarorlofssjóðs hækka um 8 milljarða kr. á tímabili fjármálaáætlunar 2025-2029. Í áðurnefndu frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra er síðan gert ráð fyrir sambærilegri hækkun á mánaðarlegum hámarksgreiðslum til foreldra í sorgarleyfi. 

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga hafa einnig í för með sér að hámarksgreiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa hækka og tekur sú hækkun sömuleiðis gildi í þrepum. Fyrri hækkunin átti sér stað þann 1. apríl sl. þegar  greiðslan fór úr 633.000 kr. á mánuði í 850.000 kr. Seinni hækkunin verður 1. janúar 2025 þegar hámarksgreiðslan mun hækka í 970.000 kr. á mánuði.

Þá koma samkvæmt fjármálaætluninni 250 milljónir kr. inn árlega frá árinu 2026 til að útvíkka í skrefum réttindi til sorgarleyfis frá því sem nú er. Frumvarp þess efnis verður lagt fram á þingi í haust þar sem réttindin verða skilgreind frekar.

Inngilding og innflytjendur

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið vinnur nú í fyrsta sinn að stefnu og framtíðarsýn í málefnum innflytjenda.

„Ég hef lagt mikla áherslu á inngildingu innflytjenda og heildstæða nálgun í málefnum útlendinga hér á landi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

„Til stendur að auka stuðning við samfélagsfræðslu og íslenskukennslu sem hluta af inngildingu í íslenskt samfélag. Samfélagsfræðsla miðar að því að auka þekkingu innflytjenda á tækifærum, réttindum og skyldum í íslensku samfélagi. Íslenskt mál er lykill að inngildingu og þátttöku í samfélaginu og á tímabili fjármálaætlunar 2025-2029 verða innleiddir ýmsir hvatar til íslenskunáms."

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum