Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Tvær framúrskarandi vísindakonur hljóta Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs

Dr. Þórhildur Halldórsdóttir og Dr. Heiða María Sigurðardóttir, handhafar Hvatningarverðlauna Rannsóknasjóðs 2024 og 2023. - myndRannís

Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs fyrir árin 2023 og 2024 voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís sem fór fram í gær. Verðlaunin voru að þessu sinni veitt tveimur framúrskarandi vísindakonum en fyrir árið 2023 hlaut Dr. Heiða María Sigurðardóttir, prófessor við sálfræðideild Háskóla Íslands verðlaunin og Dr. Þórhildur Halldórsdóttir, lektor við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík fyrir árið 2024.

Hvatningarverðlaunin eru veitt vísindafólki sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað fram úr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi sem treystir stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1987 og er markmið þeirra að hvetja vísindafólk til dáða og vekja athygli almennings á mikilvægi rannsókna og starfi vísindafólks.

Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs 2023 – Dr. Heiða María Sigurðardóttir

Dr. Heiða María Sigurðardóttir er sérfræðingur í taugavísindum með sérstaka áherslu á hugræn taugavísindi. Hún lauk grunnnámi í sálfræði við HÍ árið 2005 og varði doktorsritgerð sína frá taugavísindadeild Brown-háskóla í Bandaríkjunum árið 2013. Hún hefur síðan stundað rannsóknir og kennslu við HÍ og tók við stöðu lektors við sálfræðideild skólans árið 2016 og hlaut framgang í stöðu prófessors árið 2023.

Heiða er afkastamikill rannsakandi og meðhöfundur fleiri tuga vísindagreina sem safnað hafa hundruðum tilvitnana. Þá hefur hún leitt fjölmörg rannsóknaverkefni sem m.a. hafa verið styrkt af Rannsóknasjóði.

Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs 2024 – Dr. Þórhildur Halldórsdóttir

Dr. Þórhildur Halldórsdóttir er sérfræðingur í klínískri barnasálfræði með sérstaka áherslu á áhættu og verndarþætti sem móta líðan hjá börnum og ungmennum. Hún lauk grunnnámi í sálfræði við HÍ árið 2008, meistaranámi í klínískri barnasálfræði frá Virginia Tech háskólanum í Bandaríkjunum árið 2011 og doktorsnámi frá sama skóla árið 2014. Að námi loknu starfaði Þórhildur sem nýdoktor hjá Max Planck stofnuninni fyrir geðlækningar í Þýskalandi áður en hún sneri aftur til Íslands. Hún var ráðin lektor við HR árið 2019 og hefur frá árinu 2021 leitt nýtt rannsóknarsetur um samspil umhverfis og erfða innan skólans.

Þórhildur hefur skapað sér sérstöðu með því að tvinna saman ólík fræðasvið, sálfræði, erfðafræði og faraldsfræði, í þeim tilgangi að rannsaka áhættu- og verndarþætti sem móta líðan barna. Hún hefur skarað fram úr þegar kemur að rannsóknum og verið meðhöfundur tæplega 40 rannsóknagreina sem safnað hafa um tvö þúsund tilvísunum. Þar að auki hefur hún leitt fjölmörg rannsóknaverkefni sem hlotið hafa styrki úr bæði innlendum og erlendum rannsóknasjóðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum