Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Sjálfstæð þjóð með sterka rödd á alþjóðavettvangi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flytur opnunarávarp sitt. - myndKristinn Ingvarsson

Víðsjárverð staða alþjóðamála, átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, varnarbarátta Úkraínu sem og staða og stefna Íslands á alþjóðlegum vettvangi var í brennidepli í opnunarávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á árlegri ráðstefnu um alþjóðamál sem fram fór í Norræna húsinu í dag.  

Ráðstefnan Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?  er haldin á síðasta degi vetrar, var og er haldin á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Norræna hússins í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félag stjórnmálafræðinga.  

Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að Ísland tali áfram skýrt á alþjóðavettvangi fyrir þeim gildum sem landið stendur fyrir. Þrátt fyrir smæð landsins hafi þjóðin rödd sem hlustað sé eftir á alþjóðlegum vettvangi, sérstaklega í samfloti með minni líkt þenkjandi ríkjum á borð við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin sem oftar en ekki tali einni röddu. 

„Við erum sjálfstæð, en við erum ekki hlutlaus. Við erum herlaus, en ekki varnarlaus. Við erum auðmjúk, en höfum sjálfstraust. Við erum fá, en framlag okkar skiptir máli,“ sagði Þórdís Kolbrún. 

Tveggja ríkja lausn til friðar

Í ræðu sinni ítrekaði ráðherra afstöðu Íslands til átakanna sem nú geisa fyrir botni Miðjarðarhafs. Ísland hefur kallað eftir tafarlausu vopnahléi á Gaza, vernd almennra borgara og fordæmt allar aðgerðir sem hamlað hafa því að lífsnauðsynleg mannúðaraðstoð berist almennum borgurum á Gaza svæðinu. 

„Nánast algjör samstaða er meðal okkar vina- og bandalagsríkja um að tveggja ríkja lausn sé líklegasta leiðin til þess að stöðugleiki og friður geti orðið á svæðinu,“ sagði Þórdís Kolbrún og minnti á að Ísland hafi gengið fram fyrir skjöldu í þágu þess að Palestínumenn fái sitt eigið ríki. „Varanleg lausn mun krefjast bæði hugrekkis og fórna af beggja hálfu.“ 

Þjóð sem á og getur lagt af mörkum

Í samræmi við nýsamþykkta þingsályktun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands er ætlunin að framlög til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar aukist jafnt og þétt næstu árin. Ráðherra sagði stjórnvöld staðráðin í að halda áfram á sömu braut, enda sýni nýleg jafningjarýni þróunarnefnda OECD að framlag Íslands hafi skilað áþreifanlegum árangri. 

„Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru ekki af léttara taginu,“ sagði Þórdís Kolbrún. „Átök og óstöðugleiki, náttúruhamfarir og breytt loftslag hafa rekið milljónir á flótta og hundruð milljóna þurfa á neyðaraðstoð að halda. Við, sem búum við svo mikla velsæld, bæði getum og eigum að leggja okkar af mörku og bregðast við mikilli neyð.“ 

Mikilvægasta framlag Vesturlanda til að tryggja eigið öryggi

Þá undirstrikaði ráðherra sömuleiðis mikilvægi þess að Ísland standi vaktina ásamt vinaþjóðum í varnarmálunum, gegn niðurrifs- og eyðileggingaröflum sem reyni að ala á sundrung meðal bandalagsþjóða.  

„Ísland á stöðugt að leita leiða til þess að leggja sitt af mörkum, því það sem ræður mestu um öryggi okkar, og það sama má reyndar segja um nánast allar aðrar þjóðir, er ekki hvort við getum varið okkur sjálf, heldur hvort sameiginlegar varnir og fælingarmáttur bandalagsríkja okkar dugi,“ sagði Þórdís Kolbrún. 

Utanríkisráðherra lagði áherslu á að hvergi verði hvikað frá stuðningi við varnarstríð Úkraínu, enda sé stuðningurinn mikilvægasta framlag Vesturlanda til að tryggja eigið öryggi, varnir og velsæld.

„Friður án frelsis er Úkraínu lítils virði og meiriháttar ógn við heimsmynd okkar,“ sagði Þórdís Kolbrún. „Fleiri ríki en Rússland myndu draga þann lærdóm af stríðinu að þau séu hafin yfir alþjóðalög og landamæri séu í besta falli til viðmiðunar. Kostnaður við að styðja Úkraínu nú bliknar í samanburði við þann kostnað og fórnir sem yrði að færa í alþjóðasamfélagi lögleysu og landvinningastríða.“  

Að endingu þakkaði utanríkisráðherra Guðna Th. Jóhannessyni fráfarandi forseta Íslands, sem hélt hátíðarerindi á ráðstefnunni, fyrir farsælt samstarf. 

Ávarp utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Piu Hansson forstöðumanni Alþjóðamálastofnunar - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum