Hoppa yfir valmynd
2. maí 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sorpa og Bambahús hljóta Kuðunginn og nemendur Árbæjarskóla eru Varðliðar umhverfisins

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt fulltrúum 10. bekkja Árbæjarskóla sem eru Varðliðar umhverfisins 2024. - mynd

Umhverfis-, orku-  og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, veitti í dag fyrirtækjunum Sorpu og Bambahúsum Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Þá hlaut Lögreglan á Vesturlandi sérstaka hvatningarviðurkenningu dómnefndar fyrir framsýni og eftirtektarverðan samdrátt í losun. Einnig komust í úrslit fyrirtækin BM Vallá og Snerpa Power.

Við sama tækifæri voru nemendur í Árbæjarskóla útnefndir Varðliðar umhverfisins.

„Það er ánægjulegt að upplifa þá miklu vitundarvakningu sem orðið hefur á undanförnum árum í umhverfis- og loftslagsmálum. Hringrásarhagkerfið, sem Kuðungsviðurkenningarhafar dagsins, sinna svo sannarlega af krafti, er mikilvægur liður í að Ísland nái markmiðum sínum um kolefnishlutleysi. Orkuskiptin skipta þar ekki síður miklu máli í þessum efnum og því er ánægjulegt að upplifa metnað lögreglunnar í þeim efnum, því eins og lögreglustjórinn benti sjálfur á; ef lögreglan á Vesturlandi getur rafvætt sig, þá geta það allir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Það er svo ekki síður gleðiefni að verða vitni að þeirri grósku sem á sér stað í umhverfisstarfi skóla og hvernig unga fólkið vekur okkur til umhugsunar um umhverfismálin.“

Sorpa hlutu Kuðunginn í flokki stærri fyrirtækja, en Sorpa hefur í samstarfi við almenning lyft grettistaki í flokkun lífræns úrgangs árið 2023.

Sorpa hlaut Kuðunginn í flokki stærri fyrirtækja, en Sorpa hefur í samstarfi við almenning lyft grettistaki í flokkun lífræns úrgangs árið 2023. 

Sorpa og Bambahús hljóta Kuðunginn

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Sorpu sem handhafa Kuðungsins 2023 kemur fram að Sorpa hafi í samstarfi við almenning lyft grettistaki í flokkun lífræns úrgangs árið 2023.  Sorpa hafi á árinu ráðist í mikilvæg umbóta verkefni sem sneru meðal annars að innleiðingu samræmds flokkunarkerfis og sérsöfnun matvæla á höfuðborgarsvæðinu. Með sérsöfnun matarleifa hafi verið stigið stórt skref í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, sem hafi skilað gríðarlegum umhverfisávinningi.  

Sorpa hafi gengið mun lengra en hægt sé að ætlast til af fyrirtækinu miðað við kjarnastarfsemi og hafi tekist að breyta hegðun almennings á skömmum tíma, auk þess að virkja fólk til þátttöku með átaki í fræðslu og markaðsherferðum. Þá hafi Sorpa tekið þátt í fjölda samstarfsverkefna á sviðum endurvinnslu og endurnýtingar og veitt hlutum nýtt líf, m.a. í gegnum Efnismiðlunina og Góða hirðinn. Telur dómnefndin að Sorpa sé vel að viðurkenningunni komin og sé öðrum fyrirtækjum til mikillar eftirbreytni með starfi sínu.  

Í rökstuðningi sínum fyrir valinu á Bambahúsum bendir dómnefndin á að Bambahús hafi sýnt eftirtektarvert frumkvæði með því að nýta hráefni sem annars hefði verið fargað. Fyrir tilstilli Bambahúsa hafði bambar, sem áður voru fluttir úr landi, þeir brenndir eða þeim fargað með tilheyrandi úrgangsmyndun og  losun gróðurhúsalofttegunda fengið nýtt hlutverk sem fjölnota ylhús. Vörur fyrirtækisins tali beint inn í hringrásarhagkerfið og sýni og sanni eina ferðina enn að það sem er úrgangur í augum eins getur verið gull í augum annars. Bambahús hafi í samstarfi við önnur fyrirtæki, fært leik- og grunnskólum víða um land fjölnota ylhús að gjöf, sem nýtast bæði til kennslu og ræktunar matvæla. Er dómnefndin sammála um að notkun bambahúsanna feli í sér fræðslugildi um mikilvægi hringrásarhagkerfisins, ræktunar og sjálfbærni og stuðli að viðhorfsbreytingu sem geti falið í sér umtalsverð afleidd jákvæð umhverfisáhrif umfram þau sem felast í gerð húsanna sjálfra. Bambahús hafi sýnt mikla samfélagsábyrgð með því að rækta framtíðina og sé ávöxturinn af starfsemi fyrirtækisins mikill. 

Bambahús hlutu Kuðunginn í flokki smærri fyrirtækja.

Bambahús hlaut Kuðunginn í flokki smærri fyrirtækja.

Rafvæða bílaflotann fyrst lögregluembætta í Evrópu

Dómnefndin ákvað enn fremur að veita lögreglunni á Vesturlandi sérstök hvatningarverðlaun Kuðungsins.  Lögreglan lauk á árinu fimmta græna skrefinu í ríkisrekstri og þar sem stærsti losunarþáttur embættisins var vegna samgangna, steig lögreglan það skref að rafvæða bílaflotann og draga þar með verulega úr losun embættisins jafnframt því að ná fullum orkuskiptum. Er Lögreglan á Vesturlandi fyrst lögregluembætta í Evrópu til að fara í þá vegferð og hefur sá árangur hlotið mikla athygli innan og utan landsteinanna.

Verðlaunagripurinn Kuðungurinn er hannaður af þeim Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur hjá Fléttu hönnunarstofu, en þær hafa sérhæft sig í að hanna úr endurnýttum efnivið. Við hönnun og framleiðslu Kuðungsins settu þær sér fastar skorður og nýttu til þess eingöngu endurnýttan efnivið eða afgangsefni frá annarri framleiðslu. Grunnur verðlaunagripsins er gerður úr lituðu timbri frá Sorpu sem annars færi til urðunar, og á toppnum trónir steinn sem minnir á hrafntinnu en er í raun aukaafurð frá framleiðslu steinullar hér á landi. Hráefnin koma svo saman í spíral og vísar formið þannig til kuðungsins sem verðlaunin eru kennd við.

Sorpa og Bambahús öðlast rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Í dómnefnd sátu Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir, formaður, Reynir Smári Atlason, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Auður Alfa Ólafsdóttir f.h. Alþýðusambands Íslands og Snorri Hallgrímsson, f.h. félagasamtaka á sviði umhverfisverndar.

Lögreglan á Vesturlandi fékk sérstök hvatningarverðlaun Kuðungsins.

Nemendur Árbæjarskóla Varðliðar umhverfisins 2024

Nemendur í 10. bekk Árbæjarskóla voru þá útnefndir Varðliða umhverfisins árið 2024 fyrir samþætt umhverfisverkefni sitt um sjálfbæra þróun. Viðfangsefni sem nemendur kynntu sér ítarlega, settu saman fróðleiksmola um og leituðu lausna sem stuðla að sjálfbærri þróun.

Er það mat valnefndar að aukinn skilningur nemenda á viðfangsefnum sjálfbærrar þróunar sé undirstaða og jafnframt fyrsta skref í átt að jákvæðum breytingum í umhverfismálum. Fróðleiksmolar nemendanna séu áhrifarík leið til að vekja þá sjálfa og aðra til umhugsunar, auk þess að hvetja til frekari vitundarvakningar á umhverfismálum innan skóla sem utan.

Verkefnasamkeppnin Varðliðar umhverfisins er samstarfsverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Landverndar og Miðstöðvar útivistar og útináms. Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismálum og valdefla yngri kynslóða á því sviði.  

 

Rökstuðningur dómnefndar Kuðungsins

Rökstuðningur valnefndar Varðliðanna

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum