Hoppa yfir valmynd
2. maí 2024 Forsætisráðuneytið

Tilkynnt um tilnefningar til jafnréttisverðlauna Vigdísar Finnbogadóttur

Theodoros Rousopoulos, forseti Evrópuráðsþingsins, ásamt fulltrúum úr valnefndinni. Frá vinstri: Sandra Konstatzky, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Iris Luarasi, Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Sanam Naraghi Anderlini.  - mynd

Valnefnd jafnréttisverðlauna Vigdísar Finnbogadóttur tilkynnti í dag niðurstöður sínar um tilnefningar til verðlaunanna. Þrír aðilar eru tilnefndir til verðlaunanna en alls bárust nefndinni 123 tilnefningar víðsvegar að úr heiminum. Nefndin fundaði í húsakynnum Alþingis í dag.

Tilnefningar til verðlaunanna eru:

  • Feminoteka Foundation. Pólsk samtök sem styðja við konur sem eru þolendur kynbundins ofbeldis. Samtökin starfrækja hjálparlínu fyrir fórnarlömb þar sem m.a. er boðið upp á lögfræðilega og sálfræðilega aðstoð.
  • Irida Women's Center. Grasrótarsamtök í Grikklandi sem vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun kvenna og gegn kynbundnu ofbeldi. Samtökin sem voru stofnuð 2016 þegar straumur flóttafólks leitaði til Grikklands bjóða upp á neyðaraðstoð og veita konum og börnum öruggt skjól.
  • Pascuala López López. Pascuala berst fyrir mannréttindum í heimalandi sínu, Mexíkó. Hún vinnur að því að tryggja jafnan rétt kvenna af frumbyggjaættum þegar kemur að dómskerfinu og stjórnmálaþátttöku.

Evrópuráðsþingið og ríkisstjórn Íslands standa að verðlaununum sem er ætlað að verðlauna einstakling eða samtök sem stuðla að eða styðja með framúrskarandi hætti við valdeflingu kvenna; hvort sem um er að ræða aðgerðir sem stuðla að jafnrétti kynjanna, jafnari samfélagslegri þátttöku kvenna eða aðgerðir sem vekja athygli á ójafnri stöðu kvenna og hvetja til úrbóta.

Verðlaunin verða afhent í Strassborg í Frakklandi 24. júní nk. og nemur verðlaunaféð 60.000 evrum. Þá fær verðlaunahafi einnig verðlaunagrip hannaðan af listakonunni Brynhildi Þorgeirsdóttur til eignar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum