Hoppa yfir valmynd
10. maí 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Mikilvægi atvinnulífsins í viðbragði við umhverfisáskorunum stöðugt að aukast

Umhverfis- og loftslagsráðherrarnir og aðrir fulltrúar Norðurlandanna á fundinum í Stokkhólmi, ásamt Inger Andersen framkvæmdastjóra UNEP og Karen Ellemann framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.  - mynd

Ríkur vilji til aukinnar aðkomu atvinnulífsins að lausnum fyrir umhverfi og loftslag einkenndi fund norrænu umhverfis- og loftslagsráðherranna sem fram fór í Stokkhólmi á miðvikudag. Á fundinum ræddu ráðherrarnir einnig við Inger Andersen, framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), um hvernig Norðurlönd geta frekar stutt við umhverfisstarf SÞ. Þá var nauðsyn þess að styrkja hringrásarhagkerfið á Norðurlöndum og víðar í heiminum til umræðu.

Fundurinn var m.a. haldinn til undirbúnings þremur alþjóðaráðstefnum sem fram fara síðar á árinu, þ.e. aðildaríkjaþing SÞ um loftslagsbreytingar (COP-29), aðildaríkjaþing SÞ um líffræðilega fjölbreytni (COP-15) og lokafundur alþjóðlegra samningaviðræðna um nýjan plastsamning, sem halda á í nóvember. Voru ráðherrarnir sammála um mikilvægi sterkrar aðkomu atvinnulífsins í öllum þessum viðræðum enda ljóst að einkageirinn þurfi að taka fullan þátt í nauðsynlegum aðgerðum á þessum sviðum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Ég er ánægður að sjá þá vitundarvakningu sem orðið hefur um mikilvægi atvinnulífsins þegar kemur að umhverfi og loftslagi. Ég hef mikla trú á samtali stjórnvalda og borgaralegs samfélags, og er sannfærður um að atvinnulífið geti leikið lykilhlutverk í loftslags- og umhverfisáskorunum framundan. Við þurfum einfaldlega að nýta okkur nýsköpun og kraft fyrirtækja til að finna öflugar lausnir en um leið verða stjórnvöld að tryggja að hvatar og tækifæri séu til staðar svo að þetta getið spilað vel saman.“

Í formennsku sinni í fyrra setti Ísland aðlögun að loftslagsbreytingum á dagskrá norrænu ráðherranna og ákvað núverandi formennskuland, Svíþjóð, að fylgja þeirri áherslu eftir. Á fundinum leiddi Guðlaugur Þór umræðu um hlutverk atvinnulífsins í aðlögunarvinnu vegna loftslagsbreytinga, en fram kom í kynningu á fundinum að skortur er á vitund í atvinnulífinu um þá áhættu er fylgir loftslagsbreytingum fyrir þeirra rekstur. Á sama tíma býr atvinnulífið yfir mikilvægum upplýsingum sem stjórnvöld þurfa á að halda til að skilja betur áhrif loftslagsbreytinga og aðlögunaraðgerða.

Í innleggi sínu benti Guðlaugur Þór á mikilvægi upplýsingamiðlunar í því sambandi. „Það að draga atvinnulífið að borðinu er auðvitað fyrsta skrefið í að deila upplýsingum, reynslu og þekkingu milli atvinnulífs og stjórnvalda. Þannig geta allir hagaðilar tekið upplýstar ákvarðanir með tilliti til afleiðinga loftslagsbreytinga.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum