Hoppa yfir valmynd
10. maí 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Valgarð Már Jakobsson skipaður skólameistari Framhaldsskólans í Mosfellsbæ

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Valgarð Má Jakobsson í embætti skólameistara Framhaldsskólans í Mosfellsbæ til fimm ára frá 1. ágúst 2024.

Valgarð lauk B.Sc. í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og M.Ed. prófi í stærðfræði og kennslufræði við Háskólann í Reykjavík árið 2009. Hann stundar einnig M.Ed. nám við Háskóla Íslands í stjórnun menntastofnana.

Valgarð hefur starfað við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ frá stofnun skólans árið 2009. Hann hefur tvisvar verið settur tímabundið sem skólameistari og er starfandi skólameistari í dag. Hann hefur einnig starfað sem aðstoðarskólameistari, áfangastjóri, sviðsstjóri, stærðfræði- og líffræðikennari, ásamt því að sinna fleiri ábyrgðarhlutverkum innan skólans. Valgarð starfaði einnig sem varaformaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar og varamaður í skipulagsnefnd á árunum 2018–2022. Áður starfaði Valgarð hjá Mími ásamt því að hafa starfað sem húsasmiður.

Valgarð sótti einn um embættið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum