Hoppa yfir valmynd
13. maí 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra friðlýsir Borgarneskirkju

Undirritun á friðlýsingu Borgarneskirkju. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirritað friðlýsingu Borgarneskirkju. Friðlýsingin tekur til ytra byrðis kirkjunnar allrar og innra byrðis kirkjuskips og kórs.

Borgarneskirkja var hönnuð og byggð á árunum 1942-1959 og hefur um langt skeið verið eitt helsta kennileiti Borgarness, þar sem hún stendur á klettahæð sunnan Gunnlaugsgötu og austan Bröttugötu og blasir við séð frá nærliggjandi svæðum. Arkitekt kirkjunnar var Halldór H. Jónsson og telst hún verðugt dæmi um byggingalist Halldórs, sem teiknaði fleiri hús í Borgarnesi og nærsveitum.  Halldór gaf vinnu við kirkjuna sína, sem og aðstoð og teikningar af kirkjunni.

Kirkjan var friðlýst að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands  í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar.

Í rökstuðningi Minjastofnunar Íslands með friðlýsingunni kemur fram að Borgarneskirkja sé með hefðbundnu langkirkjulagi og forkirkjuturni, miðskipi og kór og sé verðugt dæmi um byggingalist Halldórs. Kirkjan hafi ýmis sérkenni, þó hún virðist við fyrstu sýn hefðbundin að ytra útliti og byggingarstíl, en sem dæmi um sérkenni, má nefna hlutfallslega lága langveggi, hátt, bratt mænisþak, og gluggaútskot á langhliðum sem ganga fram úr veggjum og ná upp í þakflötinn þar sem þau mynda kvisti með mænisþaki. Þá sé innra rými kirkjunnar, kirkjuskip og kór, óvenjulegt og varði veginn í átt að frjálsari formsköpun og persónulegri túlkun í kirkjubyggingarlist eftirstríðsáranna.

Borgarneskirkja.

Borgarneskirkja.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er mér mikil ánægja að staðfesta tillögu Minjastofnunar um friðlýsingu  Borgarneskirkju. Kirkjan á sér merka byggingarsögu og er gott dæmi um samfélagslegt verkefni sem ber vott um þrautseigju þeirra sem að komu og breiða og öfluga þátttöku nærsamfélagsins. Kirkjan var vígð með hátíðlegri athöfn á uppstigningardag þann 7. maí árið 1959 og mér fannst einkar ánægjulegt að geta staðfest friðlýsinguna á uppstigningardegi, 65 árum síðar.”

Viðstödd friðlýsinguna voru, auk ráðherra, fyrrverandi og núverandi sóknarprests, fulltrúar Minjastofnunar, sveitarfélagsins, sóknarnefndar og ráðuneytisins. 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum