Taktu stökkið!
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur farið af stað með átaksverkefnið Taktu stökkið. Markmið þess er að fjölga háskólanemum, ekki síst strákum, en rannsóknir sýna að umtalsvert færri útskrifast úr háskólum hér á landi en á öðrum Norðurlöndum.
,,Íslenskt samfélag á allt undir því að fleiri klári háskólanám. Miklir hagsmunir eru í húfi; fyrir samfélagið, atvinnulífið og ekki síst unga fólkið okkar. Taktu stökkið er framhald af átaki sem ráðist var í síðastliðið vor sem bar góðan árangur, en þá fjölgaði umsóknum karla í háskóla um 13% á milli ára, og við vonum að þetta átak gefi jafn góða raun,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Lykilskilaboð átaksins í ár eru að fólk bíði ekki með háskólanám heldur taki stökkið og skrái sig í háskóla. Átakinu fylgir hvatning til ungs fólks um að fylgja eigin sannfæringu og velja nám við hæfi, en að sama skapi skilaboð um að það sé í lagi að skipta og blanda saman ólíkum fögum. Þá er algengum spurningum um kostnað og hvort fólk þurfi að vera fullkomlega tilbúið til að hefja nám svarað.
Átakið mun birtast á samfélagsmiðlum og í sjónvarpi, flettiskiltum og bíóhúsum en einnig verður unnið hlaðvarpsefni með viðtölum við ungt fólk úr ólíkum áttum sem deilir reynslu sinni af því að hefja nám. Það er vöntun á háskólamenntuðu fólki í hinum ýmsu greinum á Íslandi, s.s. í störf í heilbrigðisþjónustu og í hugverkaiðnaði svo eitthvað sé nefnt. Menntun mun alltaf skila sér – hvort sem það er fyrir einstaklinginn eða þjóðfélagið.
Á háskólanám.is geta áhugasöm kynnt sér allar námsleiðir í háskólum á Íslandi á skipulegan hátt til að einfalda sér að velja nám — og auka líkur á að þú komist að réttri niðurstöðu fyrir þig. Þar má jafnframt finna upplýsingar um inntökuskilyrði, námskröfur, kostnað, einingafjölda og annað sem viðkemur háskólanámi á Íslandi.