Hoppa yfir valmynd
14. maí 2024 Innviðaráðuneytið

Samstaða um árangur

Grein birt í Morgunblaðinu 14. maí 2024

Fyrr í vetur náðist sá mikli árangur á íslenskum vinnumarkaði að flest aðildarfélög Alþýðusambands Íslands endurnýjuðu kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins. Samningarnir eru að mörgu leyti tímamótasamningar enda renna þeir styrkum stoðum undir stöðugleika í íslensku efnahagslífi til næstu fjögurra ára. Þann 7. mars síðastliðinn birtu stjórnvöld yfirlýsingu þar sem tilteknar aðgerðir voru lagðar fram til stuðnings kjarasamningum á vinnumarkaði. Aðgerðirnar styðja sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um að skapa skilyrði fyrir vaxandi velsæld á Íslandi.

Aukinn jöfnuður á Íslandi

Þessar aðgerðir skipta miklu máli, enda eru þær beinlínis skrifaðar inn í forsenduákvæði samninga. Aðgerðirnar auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum, eða um allt að hálfa milljón króna á ári. Þær munu koma sér sérstaklega vel fyrir tekjulægri barnafjölskyldur, sérstaklega vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða í grunnskólum. Frumvarpi um gjaldfrjálsar skólamáltíðir verður dreift á Alþingi í dag og mun vonandi komast á dagskrá hið fyrsta. Líkt og aðrar þær aðgerðir sem stjórnvöldu lögðu fram eru þær mikilvægt skref í því að ná fram efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi – sem og forsenda fyrir friði á vinnumarkaði næstu árin. Einnig má nefna að í þinglegri meðferð eru mikilvægar umbætur á lögum um húsaleigu, sem miða að því að auka húsnæðisöryggi leigjenda og skýra ramma um leigumarkaðinn, auk þess sem ég mælti fyrir frumvarpi til þess að hækka húsnæðisbætur frá 1. júní n.k á dögunum. Þær breytingar færa á tímabili kjarasamninga níu milljarða króna til tekjulægri heimila. 

Í eðli sínu góð

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru ekki eingöngu forsenda í þjóðhagslega mikilvægum kjarasamningum heldur er um að ræða aðgerð sem er til þess fallin að ná markvisst til allra barna sem alast upp við fátækt. Slík aðgerð er í eðli sínu góð og réttlát. Skólamáltíðir eiga að vera hluti af opnu skólastarfi, óháð uppruna, bakgrunni og efnahag. Þá eykur aðgerðin jöfnuð, það hefur skaðleg áhrif á börn að alast upp við skort. Með því að draga úr fátækt meðal barna höfum við jákvæð áhrif á farsæld og framtíðarmöguleika þeirra. Þetta sýna rannsóknir á langtímaáhrifum fátæktar á Íslandi. 

Stjórnmál snúast um það að ná árangri fyrir samfélagið og með þessari sögulegu samstöðu um árangur munum við ná mikilsverðum árangri. Árangri sem felur það í sér að við auðveldum tilveru þeirra þúsunda barna sem búa á heimilum þar sem áhyggjufullir foreldrar velta fyrir sér hvernig þau geti látið enda ná saman í lok hvers mánaðar. Það er árangur sem skiptir máli fyrir okkur öll, því jafnara samfélag þar sem fátækt barna er minni er betra samfélag fyrir okkur öll. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum