Hoppa yfir valmynd
14. maí 2024 Dómsmálaráðuneytið

Sýslumenn hljóta Nýsköpunarverðlaun hins opinbera

Sýslumenn hlutu Nýsköpunarverðlaun hins opinbera fyrir brautryðjendastarf við sjálfvirknivæðingu opinberrar þjónustu, og sérstaklega stafræna málsmeðferð dánarbúa. Alls voru 92% útgefinna dánarvottorða í lok árs 2023 stafræn en til samanburðar voru þau aðeins 26% í byrjun þess árs. Auk móttöku stafrænna dánarvottorða fá sýslumenn helstu lykilupplýsingar á borð við skattframtöl og ökutækjaeignir sjálfkrafa í ferlinu í tengslum við skipti á dánarbúum. Aðstandendur geta fyllt allar yfirlýsingar og umsóknir út stafrænt, sem hefur gert umsóknarferlið einfaldara og fljótlegra.

Stafræn vegferð sýslumanna hefur staðið yfir í nokkur ár í góðu samstarfi við dómsmálaráðuneytið, haghafa og aðrar stofnanir. Stafrænar umbætur eru liður í eftirfylgni stefnu málaflokksins um bætta þjónustu, sem birtist í skýrslu sem dómsmálaráðuneytið gaf út í mars 2021 og ber heitið „Sýslumenn – framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri. Fjölmargar nýjungar hafa litið dagsins ljós og margir handvirkir ferlar sem áður kölluðu á bílferðir og símtöl eru nú leystir með handhægum stafrænum hætti.

Árangur sýslumanna í stafrænni vegferð þykir að mati ráðuneytisins eftirtektarverður og vel til þess fallinn að styðja við markmið málaflokksins, sem birtast meðal annars í fjármálaáætlunum undanfarinna ára.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum