Hoppa yfir valmynd
15. maí 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áslaug Arna kynnti árangur af nýsköpun í stjórnkerfinu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í dag þær kerfisbreytingar sem hafa átt sér stað með nýju verklagi ráðuneytis hennar. Kynningin fór fram sem liður í Nýsköpunarvikunni sem nú stendur yfir. Húsfyllir var í Kolaportinu og hlýddu gestir úr opinberri stjórnsýslu, fyrirtækjum og nýsköpunargeiranum á erindi Áslaugar sem bar heitið HVIN-verklagið og breytingarnar.

Ráðherra lagði í kynningu sinni áherslu á að ástæðan fyrir breyttum vinnubrögðum og nýjum áherslum í Stjórnarráðinu sé að hið opinbera þurfi að vera sveigjanlegra og ná meiri árangri. Í því skyni fjallaði hún um að skýr skilaboð séu frá almenningi um að kerfið sé farið að snúast of mikið um sjálft sig frekar en að þjóna fólki og fyrirtækjum landsins.

Til þess að efla traust fólks til stjórnvalda og kerfisins hefur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (HVIN) frá upphafi tileinkað sér nýtt verklag þar sem rauði þráðurinn er að kerfið sé ávallt hugsað út frá fólki en ekki kerfinu sjálfu. Verkefninu sé þó aldrei lokið enda mikilvægt að ríkisstjórnir og hið opinbera verði aldrei undanskilið innleiðingu nýsköpunar. Tækifærin eru mörg til að einfalda kerfið, auka skilvirkni og framleiðni, nýta fjármagn betur og ná meiri árangri.

Hversdagurinn er hættulegasti andstæðingurinn

Á sviði nýsköpunar er þekkt að meginþorri breytinga gengur ekki upp, auðvelt sé að detta í sama farið þegar hversdagurinn tekur yfir. Í ræðu sinni fjallaði Áslaug Arna m.a. um að sú áhætta sé alltaf til staðar, enda einkennist kerfið af sílóum þar sem hver vísar á annan. Forgangsmál innan HVIN hafi verið að breyta skipuriti, fækka skrifstofum og minnka yfirbyggingu. Á sama tíma er áhersla lögð á skipulagningu verkefna þannig að stefnumarkandi mál eru aðskilin stjórnsýslunni og amstri dagsins. Slík breyting, að hafa skýra forgangsröðun og greina á milli mikilvægra, langtíma stefnumarkandi verkefna og áríðandi daglegra úrlausnarefna, segir ráðherra hafa verið lykilatriði í því að starfsfólk ráðuneytisins sé ekki fast í viðbragðsstjórnun heldur starfi eftir skýrri stefnumörkun og markmiðum.

Stýrihópar og nefndir ekki töfralausn

Frá stofnun HVIN hafa stuttar, skilvirkar vinnustofur með lykilhópi fólks og hagaðila tekið við af stýrihópum og nefndum eins og þeim sem þekkjast hjá flestum stofnunum hins opinbera. Engir nýir stýrihópar hafa verið settir á fót í tíð ráðuneytisins. Áslaug Arna benti á í því samhengi að alls 127 slíkir starfshópar, stýrihópar, nefndir og ráð hafi verið stofnuð hjá Stjórnarráðinu árið 2022.

Á vinnustofum HVIN eru vandamál sem staðið er frammi fyrir lögð fram með spurningum og ýmis verkfæri og tæknilausnir nýttar til að þátttakendur forgangsraði vandamálum og verkefnum á gagnvirkan hátt. Þetta fyrirkomulag hafi reynst afar vel og með þessum hætti segir ráðherra að tekist hafi að leysa mörg stór mál á skilvirkan og árangursríkan hátt á skömmum tíma. Sem dæmi nefndi Áslaug Arna að komist hafi verið að niðurstöðu um aðgerðir til að fjölga nemendum í heilbrigðisvísindum á einni 90 mínútna vinnustofu með heilbrigðisráðuneytinu, Landspítalanum og Háskóla Íslands, í stað þess að setja á laggirnar starfshóp sem tæki marga mánuði í að finna lausn á vandanum. Árangurinn sjáist nú þegar, m.a. í fjölgun læknanema strax í haust.

  • Áslaug Arna kynnti árangur af nýsköpun í stjórnkerfinu - mynd úr myndasafni númer 1
  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta