Hoppa yfir valmynd
15. maí 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þórkatla hefur undirritað 471 kaupsamning vegna íbúðarhúsnæðis í Grindavík

Fasteignafélagið Þórkatla hefur yfirfarið og samþykkt kaup á 660 húseignum í Grindavík eða um 85% allra umsókna sem borist hafa. Alls hefur félagið fengið 781 umsókn um kaup á íbúðarhúsnæði í bænum, en heildarfjöldi þeirra eigna sem geta fallið undir úrræðið er um 900.

Búið er að undirrita og þinglýsa 471 kaupsamningi. Félagið hefur greitt 22,2 milljarða króna í kaupsamningsgreiðslur og yfirtekið lán hjá 16 lánastofnunum að andvirði um 11,4 milljörðum króna.

Þórkatla hefur ákveðið að leigja fasteignir sem félagið hefur keypt í Grindavík, en fyrst um sinn verða fasteignir eingöngu leigðar til fyrri eigenda þeirra. Félagið mun miða leiguverð á íbúðarhúsnæði í Grindavík við markaðsleigu að teknu tilliti til aðstæðna í Grindavík á hverjum tíma. Ákveðið hefur verið að leigan út þetta ár nemi 25% af markaðsleigu á Suðurnesjum. Leigan mun taka mið af brunabótamati eignanna og verður í kringum 625 kr. á fermetra út þetta ár. Það verður því til dæmis hægt að leigja 100 fermetra hús í Grindavík á 62.500 kr. á mánuði. Auk þess greiðir leigutaki hita og rafmagn.

Félagið mun kynna nánari tilhögun á leigu eignanna á næstunni. Þegar fram líða stundir verður skoðað að leigja út til annarra þær eignir í Grindavík sem seljendur hafa ekki óskað eftir forgangsrétti að.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum