Hoppa yfir valmynd
24. maí 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Aukin tækifæri til hagnýtingar opinberra upplýsinga með breyttum lögum

Breytingar á lögum um endurnot opinberra upplýsinga hafa verið samþykktar á Alþingi en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti breytingarfrumvarp þess efnis í lok síðasta árs.

Með breytingum eru lögin sett í takt við stafræna tækni nútímans og eflingu stafrænnar nýsköpunar, ekki síst þegar kemur að gervigreind. Uppfærð lög hafa það að markmiði að takast á við hindranir á hagnýtingu einkaaðila á opinberum upplýsingum og upplýsingum sem eru fjármagnaðar af hinu opinbera. Í kjölfar þessa verður sett reglugerð um mjög verðmæt gagnasett. Undir þetta falla gagnasett á sviði landupplýsinga, veðurfræði, hagskýrslna, fyrirtækja og eignarhalds þeirra og samgönguneta. Þannig skulu gagnasett gerð aðgengileg án endurgjalds og á tölvulæsilegu sniði.

Til viðbótar við aukið aðgengi að upplýsingum og gögnum stuðla uppfærð lög um endurnot opinberra upplýsinga að frumkvæðisbirtingu opinberra upplýsinga á hátt sem auðveldar hagnýtingu þeirra. Með þessu eru skyldur íslenska ríkisins til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins um opin gögn og endurnot upplýsinga einnig uppfyllt.

Sjá einnig:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum