Hoppa yfir valmynd
24. maí 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýtt húsnæði fyrir meðferðarheimilið Lækjarbakka

Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri húsnæðissviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu við undirritun leigusamnings í dag - mynd

Meðferðarheimili Barna- og fjölskyldustofu, Lækjarbakki á Rangárvöllum, hefur fengið nýtt húsnæði. Heimilinu var lokað í apríl vegna myglu. Það mun hefja starfsemi á nýjum stað í Hamarskoti í Flóahreppi í næsta mánuði.

Heimilið er hið eina sinnar tegundar á landinu. Það býður upp á langtímameðferð fyrir drengi sem lokið hafa meðferð á Stuðlum. Hún er ætluð unglingum, á aldrinum 14 til 18 ára, sem glíma við alvarlegan vanda á borð við vímuefnaneyslu, ofbeldi, afbrot, skóla- og námserfiðleika eða sálfélagslegan vanda, þegar önnur úrræði duga ekki til.

Leit að nýju húsnæði hefur verið í forgangi hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu og Barna- og fjölskyldustofu frá því að loka þurfti húsnæðinu á Rangárvöllum, í góðu samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og fleiri aðila. Hamarskot býr yfir heppilegum húsakosti fyrir meðferðarheimili en þar hefur áður verið rekið heimili fyrir börn.

„Þrotlaus vinna hefur farið í að finna meðferðarheimilinu Lækjarbakka nýjan stað og fagnaðarefni að það hafi tekist. Hver dagur sem líður án viðundandi aðstöðu er einum degi of mikið, fyrir drengina á meðferðarheimilinu og einnig fjölskyldur þeirra. Í Hamarskoti er hægt að hefja starfsemina að nýju sem fyrst og til langs tíma,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Barna- og fjölskyldustofa rekur meðferðarheimilið Lækjarbakka. Þar eru allt að sex drengir hverju sinni í um sex mánuði en tímalengd meðferðar er mismunandi eftir einstaklingum.

Sérstök áhersla er lögð á að virkja drengina í tómstundum, skóla og vinnu með það að augnamiði að hjálpa þeim við að takast á við áskoranir að meðferð lokinni. Við lok meðferðar stendur þeim til boða sex mánaða eftirfylgd.

Hamarskot er í eigu hins opinbera í gegnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og er leigt af Barna- og fjölskyldustofu til reksturs meðferðarheimilisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum