Hoppa yfir valmynd
28. maí 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýtt loftslagsráð tekið til starfa

Halldór Þorgeirsson. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur gengið frá skipan nýs loftslagsráðs. Loftslagsráð er nú skipað níu fulltrúum sem hafa reynslu og þekkingu af loftslagsmálum og hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum.

Halldór Þorgeirsson, fyrrum yfirmaður hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), er áfram skipaður formaður ráðsins og Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, er áfram varaformaður en bæði eru þau skipuð af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Í ráðinu eiga einnig sæti fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og umhverfisverndarsamtaka, auk annarra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi þar sæti.

Í nýskipuðu loftslagsráði sitja:

 • Halldór Þorgeirsson, formaður;
 • Brynhildur Davíðsdóttir, varaformaður;
 • Halldór Björnsson, loftslagsfræðingur og formaður vísindanefndar um loftslagsmál;
 • Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Eflu - þekkingarfyrirtæki, f.h. Samtaka atvinnulífsins;
 • Stefán Þór Eysteinsson, bæjarráði Fjarðabyggðar, f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga;
 • Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, f.h. heildarsamtaka launþega;
 • Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann á Bifröst og
 • Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, f.h. Samstarfsnefndar háskólastigsins;
 • Þorgerður María Þorbjarnardóttir, jarðfræðingur, f.h. umhverfis- og náttúruverndarsamtaka.

Aukinheldur voru tveir fulltrúar háskólasamfélagsins skipaðir varafulltrúar til setu í fjarveru aðalfulltrúa eftir atvikum:

 • Helga Ögmundardóttir, dósent við Háskóla Íslands og
 • Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Loftslagsráð var fyrst sett á fót á grundvelli þingsályktunar 2018 og aftur 2019 í kjölfar breytinga á lögum um loftslagsmál. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að hlutverk loftslagsráðs skuli tekið til endurskoðunar, með aukinni áherslu á ráðgefandi hlutverk og vísindastarf, auk aðhalds- og eftirlitshlutverks gagnvart stjórnvöldum. Þeirri endurskoðun er nú lokið, en umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fékk prófessor  Ómar H. Kristmundsson til að vinna skýrslu um starfsemi Loftslagsráðs, þar sem settar voru fram ábendingar um vænlegar leiðir til frekari ávinnings af starfi ráðsins. Við setningu reglugerðar um loftslagsráð nr. 334/2024 sem tók gildi nú í vor var horft til þeirra ábendinga, sem og niðurstöðu málþings um loftslagsráð sem haldið var í vetur. Kveður reglugerðin m.a. á um hæfniviðmið sem ráðherra skal hafa til hliðsjónar við skipan fulltrúa og vettvang til að tryggja reglulegt samtals við hagaðila.

Samkvæmt reglugerðinni skulu fulltrúar loftslagsráðs búa yfir þekkingu og reynslu á a.m.k. einum af eftirtöldum málaflokkum á sviði loftslagsmála og fullskipað skal það búa yfir þekkingu á öllum ofangreindum sviðum:

 • Loftslagsrétti, stjórnsýslu og stefnumótun.
 • Loftslagsvísindum, áhættugreiningum og náttúruvá.
 • Skipulagi og landnýtingu.
 • Hagrænum og samfélagslegum greiningum.
 • Samfélagslegum breytingum og réttlátum umskiptum.
 • Líffræðilegum fjölbreytileika, kolefnishringrás lands og vistkerfisþjónustu.
 • Nýsköpun og tækniþróun.
 • Orkumálum í samhengi orkuskipta og kolefnishlutleysis.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Öflugt loftslagsráð sem endurspeglar þá breiðu  þekkingu og reynslu sem þarf til að takast á við loftslagsbreytingar getur nú tekið til starfa. Fyrri Loftslagsráð hafa skilað góðri vinnu og haft jákvæð áhrif, meðal annars með því að brýna stjórnvöld til stefnumótunar, efla stöðu þekkingar um eðli loftslagsvandans og viðbragða við honum. Með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar getur Loftslagsráð öðlast sambærilegt ráðgefandi hlutverk og í nágrannaríkjum okkar.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum