Hoppa yfir valmynd
31. maí 2024 Utanríkisráðuneytið

Stuðningur við Úkraínu efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins. - myndNATO

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í óformlegum fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Prag í dag og í gær. Meginefni fundarins var áframhaldandi stuðningur bandalagsríkja við Úkraínu og annar undirbúningur fyrir leiðtogafund bandalagsins sem haldinn verður í Washington í júlí. 

„Það var mikilvægt að finna að bandalagsríki eru staðföst í stuðningi sínum við Úkraínu, nú þegar virkilega reynir á,“ sagði Þórdís Kolbrún að fundi loknum. „Við stöndum frammi fyrir þeirri miklu ógn sem útþenslustefna Pútíns er álfunni allri og alþjóðakerfinu og því ríður á að við stöndum þétt við bakið á Úkraínu í varnarbaráttu sinni og leit þeirra að friði og réttlæti á grundvelli alþjóðalaga.“

Ráðherrarnir ræddu aukið hlutverk Atlantshafsbandalagsins við samhæfingu þjálfunar og stuðnings við varnir Úkraínu sem verður veigamikið skref í vegferð landsins í átt til aðildar að bandalaginu. 

Þá ræddu ráðherrarnir framlög til varnarmála, styrkingu á fælingarmætti og varnargetu bandalagsins í takt við ákvarðanir leiðtogafundarins í Vilníus í fyrra, sem og mikilvægi þess að styrkja varnir í ljósi vaxandi fjölþáttaógna. 

Samhliða fundinum tók Þórdís Kolbrún þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna en samráð ríkjanna hefur eflst enn frekar við inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í bandalagið. Þá átti hún fundi með utanríkisráðherrum Svíþjóðar og Slóvakíu.

  • Stuðningur við Úkraínu efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins - mynd úr myndasafni númer 1
  • Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum