Hoppa yfir valmynd
11. júní 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ávarpaði þing aðildarríkja um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ávarpaði nú rétt í þessu þing aðildarríkja um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, COSP-17. Þingið hófst í dag í New York.

Guðmundur Ingi lagði í ávarpi sínu áherslu á þann árangur sem náðst hefði á Íslandi frá síðasta þingi sem fór fram á sama tíma í fyrra. Hann var þá fyrsti íslenski ráðherrann til að sækja aðildarríkjaþingið.

Ráðherra sagði meðal annars frá landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem samþykkt var á Alþingi í vor og markar tímamót. Í fyrsta sinn er Ísland nú með heildstæða stefnu í málefnum fatlaðs fólks. Markmiðið er að fatlað fólk geti notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við annað fólk. Guðmundur Ingi undirstrikaði að í ár væri sérstök áhersla lögð á Íslandi á að vekja athygli á réttindum fatlaðs fólks.

Þá undirstrikaði ráðherra að frumvarp hans um breytingar á örorkulífeyriskerfinu væri nú í meðförum Alþingis. Markmið breytinganna væri að gera örorkulífeyriskerfið bæði einfaldara og réttlátara. Á Alþingi væri enn fremur til umfjöllunar frumvarp um stofnun Mannréttindastofnunar. Stofnunin væri forsenda þess að samningurinn um réttindi fatlaðs fólks yrði lögfestur í íslenskan rétt.

Ávarp ráðherra var flutt rafrænt og má nálgast texta ræðunnar á vef ráðuneytisins

 

Í sal allsherjarþingsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum