Hoppa yfir valmynd
13. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á öryggismál til umræðu í Hörpu

Hópmynd af fundargestunum í Hörpu. - mynd

Á fyrsta fundi sendiherra og sérstakra erindreka í loftslagsmálum hjá aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, sem fram fór í Hörpu í vikunni, voru loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á öryggismál til umræðu.

Í opnunarávarpi sínu bauð Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hópinn velkominn til Íslands og kallaði eftir auknu samstarfi um loftslagsbreytingar og öryggismál.

„Atlantshafsbandalagið getur þjónað sem mikilvægur vettvangur fyrir aðildarríkin til að bera kennsl á, fylgjast með og ræða þau áhrif sem loftslagsbreytingar hafa á sameiginlegt öryggi okkar. Því þegar öllu er á botninn hvolft er öflugt samstarf, bandalag og sterkt fjölþjóðlegt kerfi lykillinn að því hvernig við tökumst saman á við þessa ógn.“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars í ávarpi sínu.

Umræðuefni fundarins snérust um ýmsa snertifleti varnarmála, hernaðargetu og loftslagsbreytinga og þá var sérstaklega rætt um innlenda stefnumörkun í loftslagsmálum með skírskotun til öryggismála, meðal annars hvað varðar þjóðaröryggi og varnir.

Þá var sömuleiðis til umræðu aðkoma Atlantshafsbandalagsins að næstu loftslagsráðstefnu aðildarríkja rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og hvernig styrkja megi samráð bandalagsríkjanna í aðdraganda ráðstefnunnar, sem fer fram í nóvember.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum