Hoppa yfir valmynd
14. júní 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Heimilisiðnaðarfélag Íslands viðurkennt hjá UNESCO

MYNDTEXTI: Kristín Vala Breiðfjörð formaður Heimilisiðnaðarfélagsins (fyrir miðju) ásamt Vilhelmínu Jónsdóttur frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu (til vinstri) og Guðrúnu Þorsteinsdóttur frá fastanefnd Íslands hjá UNESCO (til hægri). - mynd

Á aðalfundi UNESCO á þriðjudaginn um varðveislu óáþreifanlegs menningararfs, var Heimilisiðnaðarfélag Íslands staðfest sem viðurkennd félagasamtök. Slíka viðurkenningu hljóta frjáls félagasamtök sem í starfsemi sinni hafa fagþekkingu á sínu sviði sem telst mikilvæg við að varðveita, viðhalda og miðla óáþreifanlegum menningararfi.

Tæplega 300 félagasamtök víða um heim eru viðurkennd hjá UNESCO en Heimilisiðnaðarfélagið er fyrsta íslenska félagið sem hlýtur slíka viðurkenningu. Félagið var stofnað árið 1913 og hefur í yfir 110 ára sögu sinni stuðlað að varðveislu hefðbundinnar handverkskunnáttu sem almennt var stunduð á heimilum landsins. Félagið stendur árlega fyrir fjölda vel sóttra námskeiða þar sem t.d. er kenndur þjóðbúningasaumur, tóvinna, útsaumur og vefnaður. Félagsmenn eru um 850 talsins.

Umsóknarferlið tók rúmlega 18 mánuði og í því ferli var starfsemi og fagþekking félagsins metin en hjá UNESCO er lögð sérstök áhersla á að viðurkennd félagasamtök miðli menningararfleifð áfram til komandi kynslóða, t.d. með kennslu, fræðslu og útgáfu.

Kristín Vala Breiðfjörð, formaður Heimilisiðnaðarfélagsins, var viðstödd aðalfundinn til að taka við viðurkenningunni. „Það er okkur mikill heiður að fá að taka þátt í starfi UNESCO og við vonum að þessi viðurkenning á starfi félagsins muni auka áhuga landsmanna á þeim menningararfi sem felst í þjóðlegu, íslensku handverki.“

Menningar- og viðskiptaráðherra tók í sama streng: „Hlutverk frjálsra félagasamtaka verður seint ofmetið. Í félögum, líkt og Heimilisiðnaðarfélaginu, starfar fólk af einlægum áhuga og eldmóði að varðveislu menningararfleifðar. Heimilisiðnaðarfélagið á sér langa sögu og þar býr einstök þekking á handverki. Í starfsemi sinni stuðlar félagið að miðlun og varðveislu arfleifðarinnar meðal annars með öflugu námskeiðahaldi og útgáfu. Ég er sérlega ánægð með þessa verðskulduðu viðurkenningu Heimilisiðnaðarfélagsins og vona að hún verði til þess að styrkja enn frekar starfsemi félagsins og stuðli að varðveislu handverksþekkingar almennt“, segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum