Hoppa yfir valmynd
14. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Viðskiptaumhverfi Íslands opið og gagnsætt samkvæmt úttekt Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar

Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir sendinefnd Íslands.  - myndWTO

Í dag lauk reglubundinni úttekt á viðskiptastefnu Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Er þetta í sjötta skipti sem slík úttekt fer fram á vegum stofnunarinnar, en síðasta rýni fór fram árið 2017. Í tengslum við úttektina gaf skrifstofa WTO út ítarlega skýrslu um viðskiptastefnu Íslands og íslensk stjórnvöld gáfu sömuleiðis út styttri skýrslu um stefnuna. Í kjölfarið héldu aðildarríki WTO tvo fundi þar sem farið var ítarlega yfir efni skýrslnanna tveggja.

„Jafningjarýni WTO á viðskiptastefnu aðildarríkjanna er mikilvægur vettvangur til að tryggja gagnsæi í alþjóðaviðskiptum. Við njótum góðs af leikreglum WTO sem auka fyrirsjáanleika, frjálsræði og réttaröryggi og við beitum okkur fyrir því að núverandi viðskiptakerfi verði styrkt í sessi. Það er sérstaklega mikilvægt nú þegar verndarhyggja og ríkisíhlutun færist í aukana,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Í úttektinni er meðal annars farið yfir hvernig Ísland yfirsteig efnahagserfiðleika í kjölfar heimsfaraldursins og þá er fjallað um áherslur Íslands á sviði umhverfismála og jafnrétti kynjanna í viðskiptum. Stefna Íslands um greiðan og öruggan aðgang að útflutningsmörkuðum til að tryggja áframhaldandi hagsæld þjóðarinnar var ítrekuð. Meginniðurstaða úttektarinnar var sú að viðskiptastefna Íslands sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og að viðskiptaumhverfið hér á landi sé opið og gagnsætt. Íslandi var sérstaklega hrósað fyrir leiðandi hlutverk sitt á vettvangi WTO við gerð samnings um takmarkanir ríkisstyrkja í sjávarútvegi. Viðleitni Íslands til að auka vægi jafnréttis- og umhverfismála í samningum á milli aðildarríkja stofnunarinnar var einnig hampað.

Úttekt af þessu tagi fer fram á viðskiptastefnu allra aðildarríkja WTO með reglubundnu millibili. Markmiðið með henni er að gera aðildarríkjum WTO kleift að fylgjast með þróun á viðskiptastefnu annarra ríkja stofnunarinnar og þar með auka gagnsæi og stuðla að umbótum í alþjóðlegum viðskiptum. Við úttektina gafst aðildarríkjum WTO tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og spurningum er vörðuðu viðskiptastefnu Íslands.

Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir sendinefnd Íslands. Auk þess sátu fulltrúar utanríkisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og matvælaráðuneytisins fundinn ásamt fastanefnd Íslands í Genf. Næsta úttekt á viðskiptastefnunni mun fara fram að sjö árum liðnum.

Ofangreindar skýrslur eru aðgengilegar á vef Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

 
  • Viðskiptaumhverfi Íslands opið og gagnsætt samkvæmt úttekt Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum