Hoppa yfir valmynd
18. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Starfshópur utanríkisráðherra leggur til aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða

Starfshópur um aðgerðir gegn gullhúðun EES-reglna ásamt utanríkisráðherra. - mynd

Mikilvægt er að auka gæði lagasetningar við innleiðingu EES-gerða til að forðast gullhúðun sem kemur niður á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á innri markaði EES. Þetta er niðurstaða starfshóps sem utanríkisráðherra skipaði til að skoða aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, en skýrsla starfshópsins var birt í dag

Þar eru lagðar fram skýrar tillögur til úrbóta. Í niðurstöðunum segir að það kunni að vera rök fyrir setningu viðbótarreglna en þá þurfi það að koma skýrt fram í undirbúningsgögnum og sæta áhrifamati. Er því beint til hvers ráðuneytis að leggja mat á það á sínu málefnasviði hvort gullhúðun hafi átt sér stað í gildandi löggjöf og taka þá upplýsta afstöðu  hvort ástæða sé til að endurskoða slík tilvik hvert fyrir sig.

„Það er óþolandi þegar heimatilbúnum reglum er bætt við EES-reglurnar og EES-samningnum svo kennt um allt saman, fyrir utan auðvitað þau skaðlegu áhrif sem það hefur á samkeppnisstöðu okkar. Ég held að markviss skref til að auka gæði og gagnsæi í lagasetningu muni draga úr þessum tilvikum fram veginn. Nú mun ég leggja til við ríkisstjórn að unnið verði að úrbótum á grundvelli niðurstöðu starfshópsins og ég geri ráð fyrir að áhrifanna fari að gæta þegar á næsta löggjafarþingi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherra skipaði starfshóp um aðgerðir gegn gullhúðun EES-reglna 24. janúar 2024 á grundvelli samþykktar ríkisstjórnar. Starfshópinn skipuðu Brynjar Níelsson, lögfræðingur sem jafnframt var formaður, dr. Margrét Einarsdóttir prófessor og María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs. Með hópnum starfaði Inga Þórey Óskarsdóttir, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu. Í erindisbréfi kom fram að starfshópurinn skyldi taka mið af fyrri vinnu og meðal annars hafa til hliðsjónar nýlega skýrslu um gullhúðun á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Þá skyldi starfshópurinn skoða einstök tilvik sem ábendingar hefðu borist um til hópsins eða komið hefðu fram í almennri umræðu. Hópnum var falið að leggja til almennar úrbætur til að draga úr hættunni á að gullhúðun eigi sér stað. Starfshópurinn átti víðtækt samráð í vinnu sinni og hefur nú skilað niðurstöðum sínum í meðfylgjandi skýrslu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum