Hoppa yfir valmynd
18. júní 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Stóraukin aðsókn í háskóla

Umsóknum fjölgaði í flesta háskóla landsins milli ára auk þess sem merkja má aukna aðsókn í heilbrigðis-, kennslu- og vísindagreinar. Þetta sýna umsóknartölur frá háskólunum, en frestur til að skrá sig í nám fyrir næsta haust rann út fyrr í mánuðinum.

„Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá þessa fjölgun umsókna í háskólanám, ekki síst í STEAM-greinunum svokölluðu. Fjölgunin er til marks um að aðgerðir ráðuneytisins séu að virka og að sífellt fleiri séu að átta sig á öllum tækifærunum sem standa fólki með háskólamenntun til boða,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Háskólanum á Akureyri bárust 7% fleiri umsóknir en í fyrra og frá árinu 2022 fjölgar umsóknum um tæp 20%. Aðsókn í nám við hjúkrunarfræðideild skólans eykst verulega en þar fjölgar umsóknum um 11% frá síðasta ári. Mesta fjölgunin er þó í kennaradeild þar sem umsóknum fjölgar um 22%. Þá hafa aldrei borist fleiri umsóknir í líftækni, en Háskólinn á Akureyri er eini háskóli landsins sem býður upp á B.S. gráðu í líftækni.

Metfjöldi umsókna við Listaháskóla Íslands og Háskólann á Bifröst

Bæði Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst fagna því að umsóknum fjölgar verulega við skólana. Báðir háskólarnir þáðu boð háskólaráðherra um óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda fyrr á árinu. Í kjölfarið hafa umsóknir um nám við Háskólann á Bifröst þrefaldast og hafa aldrei fleiri umsóknir borist en í ár, eða tæplega 1.500 umsóknir. 

Umsóknum fjölgar einnig við flestar deildir Listaháskóla Íslands. Mest er aukningin í listkennsludeild þar sem hún tæplega þrefaldast, en aukning í hönnunardeild og myndlistardeild skólans er einnig töluverð.

Aukin aðsókn í verkfræði og tæknigreinar

Metfjöldi umsókna barst Háskólanum í Reykjavík. Kynjahlutföll umsækjenda við skólann eru nokkuð jöfn en ívið fleiri karlar sækja um, eða 53% allra umsækjenda. Umsóknum við verkfræðideild skólans fjölgar um 16% milli ára og við iðn- og tæknifræðideild fjölgar þeim um 10%. 

Við Háskóla Íslands fjölgar umsóknum um 10% milli ára. Aukningin er þó meiri þegar litið er til verkfræði- og náttúruvísindasviðs skólans þar sem aukin aðsókn er í nær allar verkfræðigreinar í samanburði við síðasa ár eða frá tæpum 34% í rafmagns- og tölvuverkfræði upp í nær 43% í umhverfis- og byggingaverkfræði.

Mikil aðsókn er einnig í námsleiðir tengdar gunnskólakennslu og kennslufræði við skólann sem og í heilbrigðisvísindi. T.a.m. skráðu 270 einstaklingar sig í inntökupróf í læknisfræði en 75 nemendur verða teknir inn, 15 fleiri en tíðkast hefur undanfarin ár. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum