Hoppa yfir valmynd
24. júní 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Öllum tryggt pláss í framhaldsskólum

Alls bárust 4.677 umsóknir um pláss í framhaldsskólum landsins haustið 2024 en innritun er nú lokið. Allir nýnemar úr grunnskóla sem sóttu um hafa fengið inngöngu. Þannig var hægt að samþykkja allar umsóknir þeirra í verknám en á undanförnum árum hefur þurft að vísa stórum hluta frá vegna skorts á aðstöðu og kennurum.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og framhaldsskólar hafa lagt höfuðáherslu á að koma öllum nýnemum úr grunnskóla að á haustönn. Unnið hefur verið að auknu námsframboði framhaldsskóla til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp s.s. aukinn fjölda nemenda á starfsbrautum, í verknámi eða með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

„Með góðu samstarfi framhaldskólanna og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu hefur tekist að innrita alla nýnema úr grunnskóla í framhaldsskóla. Það er mikill áfangi og vil ég þakka okkar öfluga skólafólki fyrir að svara ákallinu. Það er sérstakt ánægjuefni að sjá að skólakerfið okkar getur tekið við öllum nýnemum í verknám en það hefur einmitt verið eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

84,5% nemenda komast inn í þann skóla sem þeir sóttu um sem fyrsta val á meðan 11,8% fá pláss í þeim skóla sem þeir völdu sem annað val. Alltaf eru einhverjir nemendur sem fá ekki inngöngu í annan af þeim skólum sem sótt var um en þeim er þá úthlutað plássi í þriðja skóla. Þetta árið eru það 3,7% umsækjenda.

Skipting milli starfsnáms og bóknáms er með svipuðu sniði og undanfarin ár en alls munu 17,6% nemenda innritast í starfsnám næsta haust. Flestar umsóknir bárust Tækniskólanum en heildarfjölda umsókna í hvern skóla, ásamt úthlutuðum plássum má sjá í eftirfarandi töflu:

 

Uppfært 24.06.24 kl. 21:21.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum