Hoppa yfir valmynd
25. júní 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ráðherra endurnýjar skipun þjóðleikhússtjóra

Magnús Geir Þórðarson. Mynd: Þjóðleikhúsið. - mynd
Skipunartími sitjandi þjóðleikhússtjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, rennur út í lok árs 2024. Hefur menningar- og viðskiptaráðherra ákveðið að undangengnu frammistöðumati á vegum ráðuneytisins og í samráði við þjóðleikhúsráð, að nýta endurnýjunarheimild 4. gr. laga um sviðslistir og framlengja skipunartíma þjóðleikhússtjóra. Samkvæmt sviðslistalögum er heimilt að endurnýja skipun þjóðleikhússtjóra einu sinni til fimm ára. Við þinglega meðferð frumvarpsins um sviðslistalög var samþykkt að ekki þyrfti að auglýsa í lok hvers skipunartímabils ef vilji væri til að endurnýja skipun þjóðleikhússtjóra, að undangengnu frammistöðumati. 

Endurnýjun skipunar embættismanna er framkvæmd samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem fram kemur í 23. gr. að skipunartími endurnýist sjálfkrafa sé embættismanni ekki tilkynnt um að embættið verði auglýst laust til umsóknar 6 mánuðum áður en skipunartími rennur út.

„Magnús Geir tók við sem þjóðleikhússtjóri í janúar 2020 og hafði því verið í starfi í tvo mánuði þegar Covid-heimsfaraldurinn skall á með öllum þeim áskorunum sem fylgdu. Þá kom vel í ljós að hann er vandaður stjórnandi og hefur Magnús Geir reynst farsæll og öflugur þjóðleikhússtjóri sem bæði er vel læs á list og rekstur eins og blómleg starfsemi og rekstur Þjóðleikhússins ber vott um,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum