Hoppa yfir valmynd
25. júní 2024 Innviðaráðuneytið

Sérstakar reglur um smáfarartæki í umferðarlögum hafa tekið gildi

Sérstakar reglur um smáfarartæki voru lögfestar þegar Alþingi samþykkti um helgina frumvarp Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um breytingar á umferðarlögum. Nýju reglurnar hafa þegar tekið gildi. Markmiðið er að auka umferðaröryggi smáfarartækja án þess að standa í vegi fyrir frekari framþróun fjölbreyttari ferðamáta.

„Skýrari lagarammi um rafmagnshlaupahjól er skref í áttina að því að aðlaga umferðarlögin að nýjum tímum, tímum þar sem vaxandi hluti fólks kýs aðrar lausnir en einkabílinn til að komast leiðar sinnar,” segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.

Helstu nýjungar í umferðarlögum sem snúa að smáfarartækjum eru eftirfarandi. Þær byggja í grunninn á tillögum í skýrslu starfshóps frá árinu 2022.

  • Nýr ökutækjaflokkur. Smáfarartæki falla ný undir nýjan ökutækjaflokk í umferðarlögum. Skilgreining umferðarlaga á smáfarartæki er eftirfarandi:„Lítið ökutæki sem er vélknúið og án sætis, telst hvorki létt bifhjól né reiðhjól og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur t.d. vélknúið hlaupahjól og tvíhjóla ökutæki á einum öxli.“ 
  • Aldursmörk og hjálmar. Börn yngri en 13 ára aldri mega ekki stýra smáfarartækjum og börn yngri en 16 ára eiga að bera hjálm. 
  • Bann við að breyta hraðastillingum. Smáfarartæki skulu ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klst. Bannað er að breyta hraðastillingum aflknúinna smáfarartækja, léttra bifhjóla og rafmagnsreiðhjóla.
  • Akstur í umferð. Akstur smáfarartækja í almennri umferð er leyfður á vegum þar sem hámarkshraði er 30 km á klst. eða lægri en veghaldari getur lagt bann við umferð smáfarartækja á einstökum vegum eða vegarköflum þyki ástæða til þess.
  • Skráning og eftirlit. Smáfarartæki verða ekki skráningarskyld ökutæki en Vinnueftirlitið mun fara með markaðseftirlit með smáfarartækjum. 
  • Áfengismagn. Sett er hlutlægt viðmið um áfengismagn í blóði ökumanna smáfarartækja og refsivert er að stjórna smáfarartæki ef áfengismagn í blóði er umfram 0,5‰ (prómill) eða vínandi í lítra útöndunarlofts umfram 0,25 milligrömm.

Taka ber fram að öll ölvunarakstursbrot falla undir sama viðurlagaákvæði umferðarlaga en það þýðir ekki að þau séu öll lögð að jöfnu eða varði sömu refsingu. Akstur undir áhrifum áfengis á smáfarartæki mun t.a.m. ekki varða sviptingu ökuréttar.

Viðurlög við broti á prófreglum í ökuprófi

Einnig var gerð sú breyting á umferðarlögum að nú er mælt fyrir um sérstök viðurlög við broti á prófreglum í ökuprófi og tekið er fram að öðrum sé óheimilt að aðstoða ökunema við brot á prófreglum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum