Hoppa yfir valmynd
28. júní 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samstarf háskóla: Opið fyrir umsóknir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur opnað fyrir umsóknir í Samstarf háskóla 2024. Áætlað er að úthluta allt að 900 milljónum króna á yfirstandandi ári en umsóknarfrestur er til og með 15. október næstkomandi.

Samstarf háskóla var kynnt til sögunnar haustið 2022 en þetta er þriðja úthlutunin sem miðar að því að auka samstarf á milli íslenskra háskóla. Fyrri úthlutanir hafa gengið vonum framar að sögn Áslaugar Örnu og meðal annars stutt við sameiningarviðræður annars vegar á milli Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum og hins vegar milli Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst.

Þá hefur Samstarf háskóla lagt grunn að sameiginlegum námsbrautum í netöryggisfræðum og heilbrigðislausnum, nýjum námsbrautum eins og í kvikmynda- og tölvuleikjagerð og nútímavæðingu kennsluhátta í fjölda greina svo fátt eitt sé nefnt.

„Þegar við lögðum upp með Samstarf háskóla vildum við ekki aðeins gera fjármögnun háskólastigsins gagnsærri en áður heldur jafnframt auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni háskólanna. Óhætt er að segja að markmiðunum hafi verið náð og ánægjulegt að sjá hvað háskólarnir hafa tekið þessu fagnandi,“ segir Áslaug Arna.  

Nánari upplýsingar um Samstarf háskóla

Háskólar og samstarfsaðilar þeirra skila umsóknum til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og verða nánari leiðbeiningar sendar á rektorsskrifstofur skólanna.

Við mat á umsóknum verður horft til áætlaðs ávinnings af verkefnunum, nýnæmis þeirra og gæða verk- og kostnaðaráætlana, en framlög geta numið allt að 80% af heildarkostnaði verkefna. Í úthlutunarreglum er að finna nánari lýsingar á þeim kröfum sem gerðar eru til umsókna.

Vonir standa til þess að háskólarnir sýni frumkvæði í greiningu á samstarfsmöguleikum sín á milli og sjálfstæði í vali verkefna sem styðja við nýsköpun og framfarir á háskólastigi.

Samstarfi háskóla er ætlað að auka gæði háskólastarfs, skilvirkni í rekstri og samkeppnishæfni íslenskra háskóla og um leið að tryggja að fjármunum sé veitt til háskólastigsins með gagnsæjum hætti og efna til samkeppni um umbótaverkefni á breiðari grundvelli en áður.

Úthlutuninni er einnig ætlað að styðja við stefnumörkun á háskólastigi og eru háskólar hvattir til að tengja umsóknir við þær áherslur sem hafa verið settar fram í stefnu stjórnvalda, t.a.m. í stjórnarsáttmála, fjármálaáætlun og þingsályktun um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi.

Að þessu sinni eru tilgreindar fjórar áherslur sem samstarfsverkefnum er ætlað að styðja við:

  1. Sameiningu háskóla og áframhaldandi uppbyggingu háskólasamstæðu.
  2. Rannsóknainnviði með áherslu á opin og ábyrg vísindi og uppbyggingu gagnainnviða sem stuðlað geta að ábyrgri þróun gervigreindar.
  3. Aukinn sveigjanleika í námi og möguleika nemenda til þess að púsla saman mismunandi námskeiðum til að öðlast ákveðna hæfni.
  4. Alþjóðasamstarf sem er til þess fallið að styðja við stafræna þróun, grænar áherslur, samfélagslegar áskoranir, samkeppnishæfni og sókn í erlenda sjóði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum