Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ísland fullgildir endurskoðaðan Félagsmálasáttmála Evrópu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Ísland hefur nú fullgilt endurskoðaðan Félagsmálasáttmála Evrópu. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, afhenti Evrópuráðinu yfirlýsingu Íslands þess efnis á leiðtogaráðstefnu um sáttmálann sem fram fór í Vilníus í Litháen í dag. Sáttmálinn er af ýmsum álitinn hliðstæða við Mannréttindasáttmála Evrópu á sviði efnahagslegra og félagslegra réttinda.

„Félagsmálasáttmáli Evrópu er yfirlýsing um sameiginleg gildi. Stefnur stjórnvalda sem eru í samræmi við sáttmálann auka og vernda samheldni samfélaga,“ sagði Guðmundur Ingi í ávarpi sínu í Vilníus í dag. Hann sagði að því miður sæist merki um hið gagnstæða í Evrópu, merki um vantraust og óróa. Félagsmálasáttmálinn væri mikilvægur til að breyta því.

Upprunalegur Félagsmálasáttmáli Evrópu var fullgiltur af Íslands hálfu árið 1976. Sáttmálinn var síðan endurskoðaður árið 1996 en Ísland hafði ekki fullgilt hann fyrr en nú. 

Reykjavíkuryfirlýsingin grundvöllur ráðstefnunnar

Í Reykjavíkuryfirlýsingunni,The Reykjavík Declaration, sem samþykkt var á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í maí 2023 var ítrekuð skuldbinding aðildarríkjanna samkvæmt Félagsmálasáttmálanum. Þar var jafnframt lagt til að haldinn yrði ráðstefna þar sem leiðtogar tækjust á herðar frekari skuldbindingar samkvæmt honum og er það ráðstefnan sem fram fór í Litháen í dag.

Leiðtogarnir samþykktu að henni lokinni yfirlýsingu þar sem fram kemur að sameiginleg skylda aðildarríkja Evrópuráðsins sé að stuðla að virðingu fyrir félagslegum réttindum og vinna að áframhaldandi þróun þeirra. Þá er í yfirlýsingunni meðal annars staðfestur sameiginlegur skilningur leiðtoganna á því að hernaðarárásir og röskun á friði séu ósamrýmanleg almennum skuldbindingum ríkja á sviði mannréttinda. Jafnframt er samstöðu með Úkraínu fagnað.

Ísland vinnur markvisst að félagslegum réttindum fólks

Guðmundur Ingi sagði á ráðstefnunni frá því hvernig íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið markvisst að því að efla félagsleg réttindi fólks. 

Mætti þar nefna breytingar á lögum um þungunarrof, samþykkt laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, lög um kynrænt sjálfræði, Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks, nýsamþykkt lög um stofnun Mannréttindastofnunar og viðamiklar umbætur á örorkulífeyriskerfinu sem Alþingi samþykkti nú í júní.

Þá hefði Ísland farið úr 18. sæti í 2. sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks á einungis sjö árum, auk þess að tróna nú í efsta sætinu á réttindakorti trans fólks í Evrópu. 

Undir endurskoðaðan Félagsmálasáttmála Evrópu fellur íslensk löggjöf sem heyrir undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, forsætisráðuneytið og innviðaráðuneytið. Skipta má réttindum samkvæmt sáttmálanum í þrjá flokka: Vinnurétt, vernd félagslegra réttinda og vernd sérstakra réttinda sem ekki falla undir vinnuumhverfi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, afhendir Bjørn Berge, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Evrópuráðinu, yfirlýsingu um að Íslandi hafi fullgilt endurskoðaðan Félagsmálasáttmála Evrópu.

Mynd: Ingibjörg Sigríðar Elíasdóttir.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, afhendir Bjørn Berge, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Evrópuráðinu, yfirlýsingu um að Íslandi hafi fullgilt endurskoðaðan Félagsmálasáttmála Evrópu. 

Sjá einnig: Treaty event at the High-Level Conference on the European Social Charter in Vilnius

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum