Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvörp heilbrigðisráðherra sem urðu að lögum á vorþingi

Fimm frumvörp heilbrigðisráðherra urðu að lögum frá Alþingi á liðnu vorþingi. Í þeim felast ýmis nýmæli sem eru mikilvæg fyrir notendur og veitendur heilbrigðisþjónustu og styrkja stjórnsýslu heilbrigðismála. Þar má nefna ákvæði um umsýsluumboð vegna aðgangs að stafrænum heilbrigðisgáttum, miðlun sjúkraskrárupplýsinga milli landa í þágu meðferðar sjúklinga og ákvæði sem einfaldar umsóknarferli vegna tiltekinna vísindarannsókna. Samþykkt var ný heildarlöggjöf um sjúklingatryggingu og gerðar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu þannig að í löggjöfinni sé tekið mið af þeim breytingum sem leiða af örri þróun á sviði fjarheilbrigðisþjónustu. 

Umsýsluumboð

Með breytingu á lögum um sjúkraskrár er kveðið á um heimild sérfræðilæknis til að skrá og eftir atvikum veita rafrænt umsýsluumboð til þriðja aðila fyrir hönd einstaklings sem er ófær um að nota rafræn skilríki og/eða rafrænar gáttir eða er ófær um að veita umboðið sjálfur. 

Miðlun sjúkraskrárupplýsinga milli landa

Með breytingu á lögum um sjúkraskrár og lögum um landlækni og lýðheilsu er kveðið á um að ef sjúklingur þarf að leita sér heilbrigðisþjónustu í einhverju landa Evrópska efnahagssvæðisins geti hann heimilað miðlun tiltekinna lykilupplýsinga úr eigin sjúkraskrá til þjónustuveitanda í því landi. Jafnframt er kveðið á um að embætti landlæknis verði gert að starfrækja landstengigátt fyrir sjúkraskrárupplýsingar til að gera þessa miðlun sjúkraskrárupplýsinga mögulega. 

Ný heildarlöggjöf um sjúklingatryggingu

Markmið nýrrar heildarlöggjafar um sjúklingatryggingu er að einfalda einstaklingum að sækja bætur vegna tjóns af völdum heilbrigðisþjónustu og auka tryggingavernd þeirra. Enn fremur að samræma og einfalda kerfi sjúklingatryggingar og auka skilvirkni í meðferð mála. Ný heildarlöggjöf leysir af hólmi lög um sjúklingatryggingu frá árinu 2001 sem var orðið nauðsynlegt að endurskoða í heild sinni. 

Einfaldara umsóknarferli vegna tiltekinna vísindarannsókna

Með breytingu á lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði er ferli umsókna um leyfi fyrir tilteknum vísindarannsóknum á heilbrigðissviði einfaldað og stuðlað að skilvirkari málsmeðferð. Almenn yfirferð Persónuverndar um umsóknir er afnumin. Þess í stað getur vísindasiðanefnd eða siðanefnd heilbrigðisrannsókna óskað eftir umsögn Persónuverndar í undantekningartilvikum telji þær vafa leika á um hvort rannsókn uppfylli skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá er ráðherra heimilt með reglugerð að mæla fyrir um að siðanefndir skuli óska eftir umsögn Persónuverndar um tilteknar tegundir rannsókna. Til mótvægis við framangreindar breytingar eru eftirlits- og rannsóknarheimildir Persónuverndar gerðar skýrari. 

Skilgreining á fjarheilbrigðisþjónustu leidd í lög

Með breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu hefur skilgreining á hugtakinu fjarheilbrigðisþjónusta verið leidd í lög, ásamt frekari skýringum á þeirri þjónustu, tæknilausnum, verkefnum og verklagi sem falla undir hugtakið. Fjarheilbrigðisþjónusta er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu. Því er mikilvægt að gildandi löggjöf taki mið af þeirri þróun og einnig að öryggi viðkvæmra persónulegra upplýsinga við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu sé tryggt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum