Hoppa yfir valmynd
6. ágúst 2024 Matvælaráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Matvælaráðherra opnar vef um líforkuver á Dysnesi í Eyjafirði

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra opnar vefinn líforka.is í Hofi á Akureyri. - myndAxel Darri Þórhallsson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra opnaði í dag í Hofi á Akureyri vefinn Líforka.is. Vefurinn er á vegum þróunarfélagsins Líforkuver sem var stofnað til að koma á fót líforkuveri á Dysnesi í Eyjafirði þar sem hægt verði að taka við dýraleifum til vinnslu.

Knýjandi þörf hefur verið fyrir söfnunarkerfi dýraleifa hér á landi en Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) höfðaði mál gegn Íslandi árið 2013 vegna ófullnægjandi innviða til förgunar á aukaafurðum dýra í samræmi við ákvæði EES-löggjafar og brotalama í opinberu eftirliti með aukaafurðum dýra. Ekki hefur fundist viðunandi lausn á málinu að mati ESA og var Ísland dæmt brotlegt með dómi EFTA dómstólsins í júlí árið 2022.

Að frumkvæði landshlutasamtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra var hafinn undirbúningur að slíkri vinnslu á Dysnesi í Eyjafirði með það að markmiði að koma dýraleifum í viðeigandi úrvinnslu eða förgun. Líforkuver mun ekki aðeins draga úr urðun ólöglegs úrgangs heldur mun það einnig hafa lykilhlutverk varðandi losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við loftlagsaðgerðir stjórnvalda og áætlanir um útrýmingu sauðfjárriðu.

„Áætlunin er að árið 2028 geti líforkuver tekið við tíu þúsund tonnum af lífrænu efni. Fyrir því mun ég berjast og standa heilshugar. Líforkuver á að rísa hér vestan Akureyrar á Dysnesi” sagði matvælaráðherra við opnun vefsins. „Líforkuverið í Dysnesi verður hjartað í þessu kerfi. Það er ekki aðeins endapunktur varðandi söfnun dýraafurða, heldur einnig dæmi um hvernig við getum breytt úrgangi í verðmæti; breytt því sem áður var fjötur orkuvinnslu og endurnýtingu í anda hringrásarhagkerfisins”.

Matvælaráðherra ásamt framkvæmdastjóra og stjórn Líforkuvers.
F.v. Kristín Helga Schiöth framkvæmdastjóri, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra, Heimir Örn Árnason frá Akureyrarbæ, Kjartan Ingvarsson stjórnarformaður frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Jónas Þór Jónasson, frá Hörgársveit, Jóna Björg Hlöðversdóttir frá SSNE og Ágúst Torfi Hauksson frá Kjarnafæði/Norðlenska.

Líforka.is mun veita aðgang að upplýsingum um framgang verkefnisins og mikilvægi þess fyrir samfélagið. Opnun vefsvæðisins undirstrikar áform stjórnvalda um að styrkja innviði sem stuðla að bættri vinnslu lífræns úrgangs að fyrirmynd hringrásarhagkerfisins. Í stjórn Líforkuvers sitja fulltrúar Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytis, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Hörgársveitar, Akureyrarbæjar og Kjarnafæðis/Norðlenska.



Efnisorð

Heimsmarkmiðin

11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum