Opið fyrir umsóknir um listamannalaun: Ráðherra býður til kynningarfundar 19. ágúst
Menningar- og viðskiptaráðherra býður til kynningar á lögum um listamannalaun mánudaginn 19. ágúst, klukkan 15 í Eddu, húsi íslenskunnar.
Á liðnu vorþingi voru samþykktar breytingar á lögum um listamannalaun í því skyni að styrkja faglega starfslaunasjóði listamanna og tryggja betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar. Tveimur nýjum launasjóðum hefur verið bætt við; launasjóði kvikmyndahöfunda og þverfaglegum sjóði fyrir 67 ára og eldri. Einnig mun úthlutunarmánuðum fjölga í hverri grein. Að þessu tilefni boðar menningar- og viðskiptaráðuneytið til umræðu um þessar breytingar sem og áherslur og stefnu listamannalauna til næstu þriggja ára.
Dagskrá
15:00 - Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra opnar fundinn.
15:15 - Jónatan Garðarsson formaður stjórnar listamannalauna fer yfir breytingar á listamannalaunum og áherslur sitjandi stjórnar.
15:30 Pallborðsumræður – Fyrir svörum sitja: Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Jónatan Garðarsson formaður stjórnar listamannalauna, Margrét Tryggvadóttir ritari BÍL og Óskar Eggert Óskarsson sérfræðingur hjá Rannís.
Fundarstjóri er Vigdís Jakobsdóttir.
Opið fyrir umsóknirum listamannalaun til 1.10.24
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um listamannalaun á listamannalaun.is og er tekið á móti umsóknum til klukkan 15:00, þriðjudaginn 1. október 2024.
Tilgangur listamannalauna er að efla listsköpun í landinu. Samkvæmt lögum um listamannalaun eru til úthlutunar 1720 mánaðarlaun sem veitt eru úr átta sjóðum:
- launasjóði hönnuða
- launasjóði myndlistarmanna
- launasjóði rithöfunda
- launasjóði sviðslistafólks
- launasjóði tónlistarflytjenda
- launasjóði tónskálda
- launasjóði kvikmyndahöfunda
- Vegsemd, sjóði fyrir listamenn 67 ára og eldri
Mánaðarleg upphæð listamannalauna árið 2024 er 538.000 kr. Starfslaun listamanna eru greidd mánaðarlega. Þau sem njóta starfslauna í sex mánuði eða lengur skulu ekki gegna fullu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur.
Í umsóknum er óskað eftir:
- Lýsingu á vinnu og listrænu gildi verkefna (50% vægi)
- Ferli umsækjenda (30% vægi)
- Verk- og tímaáætlun (20% vægi)
Umsóknir eru einstaklingsumsóknir og nota þarf rafræn skilríki við gerð þeirra. Ef við á þarf að tilgreina umsóknarnúmer samstarfslistamanna í umsóknum. Sviðslistahópar sækja um í launasjóð sviðslistafólks í gegnum umsókn Sviðslistasjóðs.
Á vef listamannalauna er umsóknarform, matskvarði, áherslur stjórnar, lög og reglugerð og leiðbeiningar um gerð umsókna og skýrslna.