Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Almenn úthlutun úr Orkusjóði 2024: Veruleg innspýting í orkuskipti íslensks atvinnulífs

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við kynningu á úthlutunum Orkusjóðs. - mynd

Í hnotskurn:

  • Heildarupphæð sjóðsins fyrir almenna auglýsingu aldrei verið hærri.
  • Áætlaður samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis vegna þeirra verkefna sem hljóta styrk hefur aldrei verið meiri.
  • Kostnaður á hvern olíulítra sem fellur úr umferð nemur um 118 kr. pr,l., sem er um helmingur af því sem hefur verið undanfarin ár.
  • Kynjahlutföll hafa aldrei verið jafnari eða um 40/60, körlum í vil.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið staðfesta tillögu Orkusjóðs um að veita 1,342  milljónum króna í almenna styrki til orkuskipta á þessu ári og hefur heildarupphæð fyrir almenna auglýsingu aldrei verið hærri. Styrkveitingarnar nú hafa þau áhrif að áætlaður samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis vegna þeirra verkefna sem styrk hljóta hefur aldrei verið meiri, eða sem nemur 11 milljón olíulítrum á ári.

Samtals fengu 53 verkefni styrk úr Orkusjóði að þessu sinni. Verkefnin eru af ýmsum stærðum og koma til framkvæmda víða um land og hafa það að markmiði að draga hratt úr losun. Alls bárust um 154 umsóknir að upphæð rúmlega 6,7 milljarða kr. og því ljóst að mikil eftirspurn er eftir styrkjum sem þessum. Áætlaður heildarkostnaður allra þeirra verkefna sem sótt var um styrki fyrir nam rúmum 30 milljörðum kr.. Þau 53 verkefni sem styrkt eru (utan innviðaverkefna) eru metin á 8,4 ma. kr., en hver styrkupphæð getur hæst numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna.

Auglýst var eftir styrkveitingum í þrem flokkum. Fyrir innviði fyrir rafknúin farartæki, raf- og lífeldsneytisframleiðslu og lausnir sem draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Innviðalausnir sem hlutu styrk eiga að gera það að verkum að rafbílar í ýmsum stærðum munu geta ferðast víðar um land en áður. Eins eiga verkefni sem draga úr notkun jarðefnaeldsneytis að hafa það í för með sér að  framboð á lausnum fyrir starfsemi sem nú þarf mikla olíu muni aukast, t.d. varðandi fiskmjölsverksmiðjur og rafkyntar varmaveitur.

Innspýting í Orkuskipti

Orkusjóður úthlutar nú verulegum upphæðum sem styðja við orkuskipti landsins. Styrkveitingarnar eru hluti af markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og orkuskiptum.

Verkefnin eru afar fjölbreytt og snúa að öllum sviðum orkuskipta á sjó og landi. Stutt er við innlenda eldsneytisframleiðslu, stórtæka innviðauppbyggingu, bætta orkunýtni og raforkuframleiðslu og kaup á fjölbreyttum tækjum sem nýta munu innlenda og endurnýjanlega orku í stað jarðefnaeldsneytis. Verkefnin munu stuðla að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda, bættu orkuöryggi landsins auk þess að vera innspýting í íslenskt atvinnulíf.

Alls hlutu 43 verkefni styrk að upphæð 649 m.kr. í flokknum innviðir fyrir rafknúin farartæki, skip og flugvélar. 29 verkefni í flokknum lausnir sem minnka eiga notkun jarðefnaeldsneytis hlutu samtals styrki að upphæð 468 m.kr. og þá hlutu 7 verkefni styrki að upphæð 225. m.kr vegna raf- og lífeldsneytisframleiðslu. 

Haraldur Benediktsson, formaður Orkusjóðs, kynnir úthlutanir sjóðsins.

Haraldur Benediktsson, formaður Orkusjóðs, kynnir úthlutanir sjóðsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:„Það er kraftur og gangur í orkuskiptunum eins og við sjáum með fjölda og fjölbreytni umsókna og ánægjulegt að sjá að ætlaður samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis vegna þessara verkefna hafi aldrei verið meiri. Sjóðurinn styrkir í þetta sinn myndarlega við rafeldsneytisframleiðslu og innviði vegna hennar. Einnig er ánægjulegt að sjá styrki til birtuorkuverkefna bæði í landbúnaði og í Flatey í Breiðafirði. Svo nálgumst við óðfluga að loka hringum þegar kemur að uppbyggingu hleðslustöðva um land allt. Þá er fyrsta glatvarmaverkefni landsins að fara af stað á Grundartanga. Það er ljóst að orkuskiptin eru á mikilli siglingu.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum